Mygluskálinn sendir viðvarandi skilaboð

Ólafur Wallevik hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í mygluskálanum sem opnaður var …
Ólafur Wallevik hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í mygluskálanum sem opnaður var í gær. mbl.is/Eggert

„Vandamálið varðandi rakaskemmdir og myglu er að fólk verður mismunandi veikt. Sumir finna engin áhrif, aðrir mikil. Sumir gera grín að þessu og segja að þetta sé ekki neitt. Þannig að við höfum sett rúm í enda skálans og bjóðum upp á sumardvöl, eina viku í einu,“ segir Ólafur Wallevik, forstöðumaður Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Miðstöðin opnaði í gær svokallaðan mygluskála þar sem ólík sýni myglu verða prófuð í ólíkum efnum.

Miðstöðin opnaði í gær svokallaðan mygluskála þar sem ólík sýni …
Miðstöðin opnaði í gær svokallaðan mygluskála þar sem ólík sýni myglu verða prófuð í ólíkum efnum. mbl.is/Eggert

„Það er nú í gríni gert að setja rúm þarna inn. Þetta er möguleiki fyrir þá sem segja að mygla sé bara bull og vitleysa. Ef þú heldur að þetta sé bara vitleysa, ertu þá til í að hætta þér? Þetta er til að senda skilaboð,“ segir Ólafur.

Skálinn sjálfur er langur og þakinn málmplötum á allar hliðar. Þar verður komið fyrir sýnum af myglu sem safnað er saman úr mismunandi húsum og þau síðan prófuð í ólíkum efnum svo hægt sé að meta alvarleika myglunnar og hvernig ákveðin efni geta varist henni.

Þekkingin ekki mikil

Eftir að myglunni hefur verið komið fyrir verður þeim sem ekki trúa á áhrif myglu á heilsu fólks, gefið tækifæri á að bóka dvöl í skálanum. Er þó fremur um táknrænt tilboð að ræða en raunverulegt, enda yrði hver sá sem inn í skálann kæmi eftir að myglunni hefur verið komið þar fyrir að vera rækilega vel búinn. Er markmiðið því fyrst og fremst að auka vitneskju og meðvitund um það vandamál sem mygla er.

Ólafur segir Íslendinga hafa sloppið vel við áhrif myglunnar í langan tíma, en að það hafi dregið ákveðinn dilk á eftir sér.

„Það er nú í gríni gert að setja rúm þarna …
„Það er nú í gríni gert að setja rúm þarna inn. Þetta er möguleiki fyrir þá sem segja að mygla sé bara bull og vitleysa. Ef þú heldur að þetta sé bara vitleysa, ertu þá til í að hætta þér?“ mbl.is/Eggert

„Við höfum verið skuggalega heppin á Íslandi og þangað til fyrir 20 árum var þetta frekar lítið vandamál. Við höfum sloppið mjög vel miðað við aðrar þjóðir en það þýðir líka að við höfum allt of litla þekkingu. Það er það sem við erum að reyna að breyta núna. Við ætlum núna að gera þjóðarátak í að reyna að minnka myglu af því að kostnaðurinn telur milljarða króna á ári.“

Í kjölfar opnunar skálans verður eftir helgi þverfaglegt málþing á vegum Nýsköpunarmiðstöðvarinnar þar sem læknar, fræðimenn og verkfræðingar verða með erindi um myglu og afleiðingar hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert