Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) hyggst fresta áætlun sinni um að senda mannað geimfar á tunglið frá árinu 2025 til ársins 2026 vegna tæknilegra örðugleika.
NASA tilkynnti Artemis-áætlunina árið 2017. Hún er nefnd eftir grísku gyðjunni og systur Apollo, en það var einmitt með Apollo-áætluninni sem menn gengu fyrst á tunglinu.
Með Artemis-áætluninni á að afla frekari upplýsinga um tunglið og þá er áætlunin hugsuð sem ákveðinn undirbúningur fyrir mannaðar ferðir til Mars.
Fyrsta geimferðin, Artemis 1, átti sér stað árið 2022 eftir að hafa verið frestað nokkrum sinnum.
Artemis 2 hefur verið frestað þar til í september árið 2025 en í þeirri ferð fer áhöfn út í geim en mun þó ekki lenda á tunglinu.
Í geimferðinni Artemis 3 er gert ráð fyrir að fyrsta konan og fyrsta manneskjan sem er ekki hvít á hörund lendi á suðurpóli tunglsins. Sú geimferð á að eiga sér stað í september árið 2026.
„Öryggi er í forgangi hjá okkur, og að gefa teymunum sem vinna að Artemis meira tíma til þess að leysa áskoranir,“ sagði Bill Nelson, forstjóri NASA, í dag.
NASA ætlar einnig að byggja geimstöð á tunglinu, Gateway, til þess að auðvelda geimferðum að lenda á tunglinu.