DNA úr skapara Star Trek á leið til Tunglsins

Um borð í Peregrine er vísindalegur búnaður sem mun rannsaka …
Um borð í Peregrine er vísindalegur búnaður sem mun rannsaka geislun og samsetningu yfirborðs og hjálpa til við að ryðja brautina fyrir endurkomu geimfara. Ýmislegt annað er um borð, til dæmis brenndar jarðneskar leifar og DNA úr Gene Roddenberry, skapara Star Trek, úr vísindamanninum Arthur C. Clarke og úr hundi. Þá er einhvers konar físísk útgáfa af rafmyntinni Bitcoin um borð einnig. AFP

Fyrsta bandaríska geimfarið, sem mun reyna tungllendingu, í yfir 50 ár tók á loft í morgun. Í þetta sinn ber einkafyrirtæki ábyrgð á leiðangrinum. Meðal þess sem er um borð er DNA úr Gene Roddenberry, skapara Star Trek.

Glæný eldflaug, Vulcan Centaur frá United Launch Alliance (ULA), fór í jómfrúarferðina frá geimstöðinni á Canaveral-höfða í Flórída klukkan 02:18 að staðartíma eða upp úr klukkan sjö að íslenskum tíma.

„Beint í mark“

Eric Monda, sem ber ábyrgð á skipulagningu leiðangursins hjá ULA, lýsti geimskotinu sem svo að það hafi verið „beint í mark“.

„Þetta var svo flott. Ég hljóp út til að horfa á skotið“, heyrðist hann segja í streyminu hjá NASA.

Ef allt gengur eftir áætlun mun geimfarið Peregrine, sem nú þegar hefur verið skilið að frá geimflauginni, lenda á svæði við miðbaug Tunglsins, Sinus Viscositatis, eða við Klísturflóa, (Bay of Stickiness) 23. febrúar.

Að leiða Bandaríkin aftur að yfirborði Tunglsins í fyrsta sinn síðan Apollo er stórmerkilegur heiður, sagði John Thornton, forstjóri Astrobotic sem smíðaði geimfarið, í aðdraganda geimskotsins.

Óvenjulegur farmur

NASA greiddi Astrobotic yfir 100 milljónir Bandaríkjadala vegna verkefnisins. Annað einkafyrirtæki, Intuitive Machines, undirbýr geimskot í febrúar og hyggst lenda geimfari nærri suðurpóli Tunglsins.

Artemis-aðgerð NASA mun þá koma geimförum til Tunglsins seinna á áratugnum sem undirbúningur fyrir framtíðarleiðangra til Mars.

Um borð í Peregrine er vísindalegur búnaður sem mun rannsaka geislun og samsetningu yfirborðs og hjálpa til við að ryðja brautina fyrir endurkomu geimfara.

Ýmislegt annað er um borð, til dæmis brenndar jarðneskar leifar og DNA úr Gene Roddenberry, skapara Star Trek, úr vísindamanninum Arthur C. Clarke og úr hundi. Þá er einhvers konar físísk útgáfa af rafmyntinni Bitcoin um borð einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert