Mjög misskipt í laxveiðinni

Leo Greve með fallegan lax úr Hofsá, sem veiddist í …
Leo Greve með fallegan lax úr Hofsá, sem veiddist í gær. Klaus Frimor leiðsögumaður brosir sínu breiðasta. Ljósmynd/Aðsend

Mjög misjafn gangur er í laxveiðiám fyrri hluta sumars. Vopnafjarðarárnar skila mun betri veiði en í fyrra en annað er upp á teningnum í Húnavatnssýslum. Þannig voru komnir um 220 laxar úr Selá í Vopnafirði, sem er mun betra en í fyrra. Sömu sögu er að segja úr Hofsá en þar höfðu veiðst 150 laxar í gær. Er þetta mun betri veiði en í fyrra. Rétt er þó að hafa í huga að síðasta ár var mjög slakt í Vopnafirði.

Í Víðidalsá og Vatnsdalsá eru komnir á land 150 og 160 laxar. Það er töluvert undir því sem var á sama tíma í fyrra. Smálaxinn skilar sér ekki í því magni sem vonast var til en það getur enn breyst.

Sjö laxar á móti einum

Miðfjarðará er í sérflokki og eins og fyrri ár langt á undan öllum nágrönnum sínum. Í frétt hér á Sporðaköstum fyrr í dag var sagt frá því að gærdagurinn skilaði 73 löxum í Miðfirði. Þar er nú veitt á tíu stangir þannig að meðaltalið gefur sjö laxa á stöng. Víðidalur og Vatnsdalur eru að berjast við að ná einum laxi á stöng á dag.

Erlendur veiðimaður hampar fallegum sjóbirtingi úr Laxá í Kjós. Áin …
Erlendur veiðimaður hampar fallegum sjóbirtingi úr Laxá í Kjós. Áin er þekkt fyrir fallega birtinga. Ljósmynd/Aðsend

Veiði í Laxá í Dölum hefur verið með ágætum og eru 200 laxar komnir í bók. Smálax og stórlax veiðist í bland. Síðustu þrír dagar í Dölunum skiluðu sextíu löxum og telst það mjög gott en þar er veitt á fjórar stangir.

Laxá í Kjós er að sama skapi að lifna vel við og hafa síðustu þrjá daga þar verið bókaðir sextíu laxar á átta stangir. Ellefu rígvænir sjóbirtingar hafa einnig komið í hollinu og er sá stærsti 84 sentímetrar.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert