„Ekki verið jafn stressaður í mörg ár“

Gunnar með hænginn úr Svarthamri. Hann er sá stærsti sem …
Gunnar með hænginn úr Svarthamri. Hann er sá stærsti sem veiðst hefur í Miðfirði til þessa í sumar. Í baksýn er hylurinn sem er einn af þeim flottustu á landinu. Ljósmynd/Ari Þórðarson

Stærsti lax sumarsins í Miðfjarðará veiddist í gær. Hængur í fullum herskrúða tók túpuna Ljósi með krók fjórtán í þeim magnaða veiðistað Svarthamri í Austurá.

Veiðimaðurinn var Gunnar Pétursson eða Gunni slökk eins og veiðifélagar hans kalla hann og vísa þar til starfa hans í slökkviliði Reykjavíkur um áratuga skeið.

Gunni óð yfir í Svarthamri og taldi að við klöppina þeim megin ætti fiskurinn skjól og rétt væri að flugan bærist að honum með öðrum hætti en þegar kastað er bílmegin. „Þetta er stór staður og endar í langri og mikilli breiðu og það var fiskur stökkvandi niður hana alla. Ég óð yfir ána og var að reyna að veiða strenginn undir klöppinni efst í staðnum. Það var eins og væri skjól fyrir hann efst í staðnum þar sem klöppin skagar út í hylinn. Þar var töluvert af fiski og ég var búinn að setja í fisk þarna og missa. En þarna kom hann,“ sagði Gunnar Pétursson í samtali við Sporðaköst. Hann heldur því fram að hann hafi verið heppinn. Hann er hins vegar mjög reyndur veiðimaður og reynsla gerir veiðimenn heppnari.

Gunnar togaðist á við stórlaxinn í fjörutíu til fimmtíu mínútur. …
Gunnar togaðist á við stórlaxinn í fjörutíu til fimmtíu mínútur. Hér er allt í keng og óvissa um niðurstöðuna en í sameiningu lönduðu þeir félagar 101 sentímetra hængnum. Ljósmynd/Ari Þórðarson

„Hann tók litla túpu frá Sigga Haug sem þeir kalla Ljósi. Hvítur kónn og svört hár og krókur númer fjórtán. Timinn verður svolítið afstæður við þessar aðstæður og ég áætla að ég hafi verið einhverjar fjörutíu til fimmtíu mínútur að slást við hann. Hann fór niður alla breiðuna og upp eftir aftur og út um allt og svo ætlaði hann niður úr staðnum og ég þurfti að hlaupa yfir. Þetta var bara eins og gengur við þessar aðstæður. Æsilegur leikur.“

Hann var með einhendu og grannan taum og þurfti því að fara að öllu með gát.

Þetta er einstaklega fallegur lax og kominn með vígalegan krók. …
Þetta er einstaklega fallegur lax og kominn með vígalegan krók. Veiðiugginn á löxum af þessari stærð er mjög stór eins og sést á þessum höfðingja. Ljósmynd/Ari Þórðarson

Adrenalínið hefur verið í botni?

„Ég hef ekki orðið svona stressaður og skjálfhentur í um langt árabil og hef ég veitt töluvert mikið af fiski í gegnum tíðina. Þetta var eiginlega bara „kick of a lifetime,““ slettir slökkviliðsmaðurinn hlæjandi. Ari Þórðarson veiðifélagi hans fer að hlæja í bakgrunni við síðustu setninguna.

„Öll þessi viðureign mun sitja í minningunni það sem ég á eftir ólifað. Svo var ég svo heppinn að vera með hann Ara með mér. Hann er gamall veiðihundur og hann var mikið að vara mig við hættum og segja mér að passa mig á hinu og þessu. Þetta voru tveir gamlir og góðir að veiða saman og á endanum náðum við honum á land.“

Sáttur með niðurstöðuna. Gunnar er alvanur stórlöxum. Hann fékk 102 …
Sáttur með niðurstöðuna. Gunnar er alvanur stórlöxum. Hann fékk 102 sentímetra fisk á Iðu fyrir tveimur árum. Ljósmynd/Ari Þórðarson

Í sameiningu mældu þeir félagar hænginn og reyndist hann 101 sentímetri og er sá stærsti í sumar úr Miðfjarðará og raunar sá fyrsti sem nær hundrað sentímetrunum, þar á bæ. En hinn svokallaði krókódílatími er nú runninn upp og geta enn bæst við slíkir fiskar.

Gærdagurinn var raunar mjög góður í Miðfirði og veiddust alls 22 laxar í ánni.

Þeim er býsna misskipt gæðunum. Sumarið 2016 veiddust 26 fiskar í Miðfirði sem náðu hundrað sentímetrum og rúmlega það. 2016 var eitt mesta stórlaxaár sem menn muna og var það í flestum ám.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert