Katrín Tanja landaði þeim stærsta

Ósvikin gleði hjá crossfit drottningunni. Hún landaði stærsta laxinum sem …
Ósvikin gleði hjá crossfit drottningunni. Hún landaði stærsta laxinum sem Sporðaköst hafa heyrt af í Hvítá við Iðu. Minning sem mun endast alla ævi, segir Katrín Tanja. Ljósmynd/KTD

Crossfit-drottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir er ekki bara búin að landa heimsmeistaratitli í crossfit. Fyrir skemmstu landaði hún draumalaxinum í Hvítá við Iðu með sínum uppáhalds veiðifélaga, afa sínum Helga Ágústssyni fyrrverandi sendiherra.

Helgi á einn af stærstu löxunum sem veiðst hafa á svæðinu en þann lax veiddi hann á áttunda áratug síðustu aldar og mældist sá höfðingi 108 sentímetrar og vigtin sýndi 30,6 pund. Ummál var 55 sentímetrar. Katrín Tanja náði ekki alveg þessum stærðum en var ekki langt frá því.

„Þetta var svo ótrúlega gaman. Afi er ótrúlega mikill veiðikall og ég hef fylgst með honum í ánni frá því að ég var lítil stelpa. Ég hef aðeins verið að veiða með honum og verið að læra þetta. Svo er kærastinn minn Brooks Laich líka mikill veiðimaður og hann ætlaði að koma með þennan dag. Ég hlakkaði mjög til að fara með þeim tveimur en svo komst Brooks ekki og ég var búinn að ræða við afa að kannski myndum við bara gera eitthvað annað þennan sunnudag, fyrst hann var ekki að komast. Afi þvertók fyrir það og sagði að við myndum skella okkur,“ sagði Katrín Tanja í samtali við Sporðaköst.

Draumakastið en flækja

Aðstæður voru frekar leiðinlegar þennan dag. Hvasst og stóð vindur beint á veiðimenn. „Mér fannst ég varla ráða við þetta. Ég var ekki að ná að kasta alltaf út í jökulvatnið. Ég var svona að finna taktinn aftur með þessa stöng. Ég var að lenda í því líka að lína flæktist á spólunni og þetta var svolítið erfitt."

Einn af stærstu fiskum sumarsins á Íslandi árið 2023. Kærastinn …
Einn af stærstu fiskum sumarsins á Íslandi árið 2023. Kærastinn komst ekki með en afi var allt í öllu og aðstoðaði í viðureigninni og löndun. Ljósmynd/KTD

En svo kom frábært kast þar sem Buck special spúnninn sveif tignarlega nákvæmlega á þann stað sem Katrín Tanja vildi. En þá varð henni litið á hjólið og þar blasti við lítið hreiður af línu. Mikil flækja og hún þurfti að hafa hraðar hendur við að greiða úr henni.

„Oh, sagði ég og hætti alveg að spá í allt nema flækjuna. Samt fannst mér eins og væri togað í línuna en ég kallaði á afa að það væri allt flækt. Hann kom og tók aðeins á stönginni og sagði. „Nei, Katrín mín þú ert með fisk.“ Ég náði að laga flækjuna og afi rétti mér stöngina og hann labbaði alveg með mér á meðan ég var að þreyta fiskinn. Þetta tók langan tíma. Hann var að kenna mér allan tíman. Vera uppi með stöngina. Á móts við fiskinn og bakka og leyfa honum að rjúka út og spóla inn og hann fór í gegnum þetta allt. Afi var bara að fylgjast með mér og ég var að horfa eftir fiskinum. Svo stökk hann. Og „ó mæ gad“ Afi ég hef aldrei séð svona fisk.“

Var eins og höfrungur

Viðureignin tók langan tíma eins og Katrín Tanja sagði en þegar þau loksins náðu honum í land þá sá þau fyrst hversu stór hann var. „Þetta var bara eins og höfrungur. Ég hef aldrei séð svona fisk áður. Ég fór bara að hlæja og sagði, afi þetta er bara ótrúlegt. Þetta er minning sem endist mér að eilífu og það að við afi skyldum hafa gert þetta saman er svo dýrmætt.“

Helgi Ágústsson mælir hér stórlaxinn. 105 sentímetrar. Það er til …
Helgi Ágústsson mælir hér stórlaxinn. 105 sentímetrar. Það er til fyrirmyndar að nota alvöru iðnaðarmálband á svona fiska. Ljósmynd/KTD

Þetta er sennilega sá stærsti sem veiðst hefur þarna í sumar.

„Já. Hugsa sér. Þetta er samt alveg smá pirrandi. Ég myndi seint segja að ég væri góð veiðikona. Ég hef aldrei veitt fisk fyrr sjálf og afi gekk alveg í gegnum þetta með mér. Svaraði öllum spurningum og leiddi mig í gegnum þetta. Svo er þetta bara alger verðlaunafiskur. Og allir alvöru veiðimennirnir segja Vá. „Ég held þú vitir ekki hvað þetta er flottur fiskur.““ Katrín Tanja hlær og já. Hún mun aldrei gleyma þessu.

Hún og Brooks búa í Idaho fylki í Bandaríkjunum og nálægt heimili þeirra er vatn sem þau veiða reglulega í. „Við förum flest kvöld á sumrin og köstum. Stundum stoppum við stutt og stundum lengur, þannig að við gerum mikið af því að veiða. Það er reyndar öðruvísi. Þar veiðum við af báti en ég hef verið að æfa mig og finnst það mjög gaman.“

Brooks komst ekki í þetta skipti en hann hefur veitt …
Brooks komst ekki í þetta skipti en hann hefur veitt á Íslandi og er hér með Katrínu Tönju á stórlaxastaðnum við Iðu. Ljósmynd/KTD

Gott að toppa ekki afa

Katrín Tanja segir að þetta sé án efa toppurinn á veiðiferlinum. Það er án efa rétt hjá henni því þessi lax mældist hvorki meira né minna en 105 sentímetrar og er einn af stærstu löxum sem veiðst hafa á Íslandi í sumar. Hún hlær og segir. „Ég er samt glöð að ég toppaði ekki stærsta laxinn hans afa. Afi á enn metið.“

Katrín Tanja hefur verið í fremstu röð í heiminum um …
Katrín Tanja hefur verið í fremstu röð í heiminum um langt skeið og á heimsmeistaratitla í crossfit. Ljósmynd/Berglind Sigmundsdóttir

En hvað sagði Brooks þegar þú sagðir honum fréttirnar?

„Hann varð svo svekktur að hafa komist með. Hann langaði svo að fara að veiða. En hann var svo glaður fyrir mína hönd. Það er alltaf þannig að hann vill miklu frekar að ég fái fisk heldur en hann. Honum finnst svo gaman að sjá mig ná fiski. Hann var alveg í skýjunum með að ég skyldi ná þessum fiski. Ég gat sent honum mynd strax og við vorum búin að landa.“

„Ég vil vera best í heimi“

Eins og alþjóð veit er Katrín Tanja fyrrverandi heimsmeistari í crossfit og hefur verið ein af skærustu íslensku íþróttastjörnum þessarar aldar.

Er hægt að bera þetta saman við crossfit árangur?

„Nei. Alls ekki. Í crossfitinu er ég búin að leggja svo ógeðslega mikið á mikið á mig. Það er allt búið að fara í þetta. Blóð, sviti og tár. Mér finnst ég hafa unnið mér inn fyrir afrekum á crossfitsviðinu. Ég set gríðarlega miklar væntingar á sjálfa mig þar. Ég vil vera best í heimi og ég er búin að vinna mér inn fyrir því að vilja ganga vel. Ég bara ekki sagt það sama með veiðina. Veiðin er skemmtileg og mér finnst ótrúlega gaman að fá að gera þetta með afa og Brooks og það er eiginlega meira samveran sem þar er dýrmætust. Ég er ekki búin að læra einhverja tækni þar. Þeir hjálpa mér mikið og svara öllum spurningum sem ég hef. Þeim finnst líka gaman að fá mig með. Ég er bara að njóta þegar ég fer í veiði og þarna datt ég bara í lukkupottinn með því að veiða þennan fisk. En í crossfitinu er ég búin að setja allt í þetta og fer þar með miklu hærri væntingar,“ segir Katrín Tanja veiðikló.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert