Bjargaði tveimur en var sjálfur stunginn

Árni er ekki enn búinn að jafna sig eftir árás …
Árni er ekki enn búinn að jafna sig eftir árás nautsins. Hann segist hafa tapað heilanum í tvo daga og var í miklu líkamlegu sjokki. Ljósmynd/Árni Baldursson

Ævintýramaðurinn Árni Baldursson komst heldur betur í hann krappann á Spáni í síðustu viku. Hann var að hefja veiðiferð þar sem skjóta átti rauðrjúpu eða partridge. Að kvöldi 2. október var hann ásamt ferðafélögum í spænska smábænum Villamanrique. Þetta var mikill hátíðisdagur og hluti af þeim hátíðahöldum var nautahlaup á götum bæjarins. Þá er nautgripum hleypt lausum og bæjarbúar hlaupa undan þeim en samtímis pirra nautin.

Þessa mynd tók Árni sjálfur nokkrum sekúndum áður en nautið …
Þessa mynd tók Árni sjálfur nokkrum sekúndum áður en nautið réðist að fólki við hliðina á honum. Hann náði að koma tveimur konum í skjól en var sjálfur og seinn annað hornið gekk á kaf neðarlega í bakið á honum. Ljósmynd/Árni Baldursson

„Við vorum að labba út af matsölustað þar sem við höfðum borðað vel. Þessi naut voru um allt og fólk hékk utan í girðingum og svölum til að forðast þau. Þá sé ég allt í einu að tvær konur koma hlaupandi undan vel vígalegri belju. Hornin voru alveg svakaleg og ég sá að dýrið ætlaði í þær. Ég var ekki að hugsa neitt. Stökk bara til og öskraði á þær og henti þeim bak við stál hlið. Ætlaði svo sjálfur að koma mér í skjól en ég var bara of seinn. Nautið kom á hundrað kílómetra hraða og rak hornin á milli rimlanna og annað fór á kaf neðst í bakið á mér. Ég steinlá og fann strax að hornið hafði farið í nýrað.“

Árni Baldursson lét sig hafa það að haltra á mótmæli …
Árni Baldursson lét sig hafa það að haltra á mótmæli gegn sjókvíaeldi á Austurvelli í gær. Hér lyftir hann upp fötum svo sjá má áverkann sem hann fékk fyrir viku. Ljósmynd/Eggert Skúlason

Svona lýsir Árni Baldursson nautaárásinni sem hann varð fyrir. Konurnar voru mjög skelkaðar en sluppu með skrekkinn. Hann var hluti af hópi skotveiðimanna sem átti að hefja skotveiðina daginn eftir. „Allt í einu spruttu upp tveir lífverðir upp úr jörðinni með stórar töskur með alls konar lækningatækjum og skoðuðu mig hátt og lágt. Þeir voru að passa einhvern sem var í hópnum okkar en enduðu með að hugsa bara um mig,“ hlær Árni.

Hann var fluttur á spítala og skoðaður hátt og lágt og óttaðist satt að segja að hann myndi lenda á skurðarborðinu vegna nýrnaskemmda. Það slapp til og hann var útskrifaður með þeirri umsögn að þetta myndi gróa en hann þyrfti að fara varlega og halda sig til hlés.

Hópurinn gerði góða veiði. Árni gat ekki tekið þátt í …
Hópurinn gerði góða veiði. Árni gat ekki tekið þátt í veiðinni. Væflaðist bara um, eins og hann orðaði það. Ljósmynd/Árni Baldursson

„Þegar ég var að úrskrifast af sjúkrahúsinu þurfti ég að borga og þetta var örugglega reikningur upp á einhverjar milljónir. Þá mundi ég eftir því að Vala konan mín hafði keypt einhverjar tryggingar og látið mig fá kort til staðfestingar á því. Ég fann kortið í vasanum og veifaði því og þá urðu allir hoppandi kátir og ég mátti bara labba í burtu.“

Árni segir að hann hafi farið í einhvers konar sjokk þegar nautgripurinn stakk horninu á kaf í síðuna á honum. „Það var bara eins og ég hefði týnt heilanum. Ég gat ekki talað og varla gengið og svo bogaði af mér svitinn. Ég fann ekki heilann á mér fyrr en eftir tvo daga. Þetta er örugglega eins og að vera í stríði og skotinn í vömbina. Maður fer bara í sjokk. Ég náði ekki að skjóta neitt þessa daga sem veiðin var. Bara væflaðist um og gat ekkert gert. Hópurinn skaut alveg svakalega vel og stærsti dagurinn var átján hundruð fuglar.“

Svona leit áverkinn út eftir að Árni var útskrifaður af …
Svona leit áverkinn út eftir að Árni var útskrifaður af spítalanum. Hornið gekk alveg inn að nýra en hann verður jafn góður heldur hann. Ljósmynd/Árni Baldursson

Árni átti að fljúga út til Skotlands í morgun og fara í síðustu stangveiðina. Af því varð þó ekki. „Vala konan mín seldi bara leyfin þegar hún frétti af því hvað hafði gerst og sagði að ég færi ekki fet. Það er kannski eins gott því nú eru svakaleg flóð í Dee og þar verður engin veiði þessa vikuna. En það er svolítið magnað að vera ljúka 210 daga veiðitímabili og enda það þannig að vera stunginn í bakið af nauti.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert