Marðir og aumir eftir opnun í kvíslinni

Þorsteinn Guðmundsson var forsjáll og tók með sér ísöxi í …
Þorsteinn Guðmundsson var forsjáll og tók með sér ísöxi í veiðiferðina. Hér er hann að opna Húseyjarkvíslina í orðsins fyllstu merkingu. Ljósmynd/Valgarður Ragnarsson

Þeir eru með marbletti og víða aumir á skrokkinn en náðu markmiðinu. Fengu allir fisk í opnun. „Ég hef ekki lent í þessu svona áður. Ég skal alveg viðurkenna að þetta var á grensunni,“ sagði Ólafur Ragnar Garðarsson í samtali við Sporðaköst í morgun. Hann var einn fjórmenninganna sem opnuðu Húseyjarkvísl í gær. Þeir opnuðu hana í orðsins fyllstu merkingu. Undir þjóðvegsbrúnni náðu þeir að opna álitlega vök til að kasta á og til að geta athafnað sig eins og nauðsynlegt er. Þar undir var góð torfa. Valgarður Ragnarsson, Þorsteinn Guðmundsson og Sævar Örn Hafsteinsson ásamt fyrst nefndum Ólafi eru í opnunarhollinu.

Eftir að hafa opnað ána var hægt að fara að veiða. Frost, rok og aðstæður vart boðlegar. Aðeins norðan við þá fjórmenninga er Öxnadalsheiðin sem var lokuð vegna veðurs drjúgan hluta páska.

Valli með fyrsta birtinginn úr Húseyjarkvísl 2024. Glæsilegur geldfiskur. 68 …
Valli með fyrsta birtinginn úr Húseyjarkvísl 2024. Glæsilegur geldfiskur. 68 sentímetrar og 3,4 kíló. Ljósmynd/Ólafur R. Garðarsson

En það er eftir miklu að slægjast í vorveiði í Húseyjarkvísl. Hún er þekkt fyrir glæsilega geldfiska sem eru jafnvel þykkari en haustfiskurinn. Og ef það er eitthvað sem veiðigyðjan verðlaunar þá er það dugnaður. Það fór líka svo að allir fengu þeir fisk. Fiskurinn sem Valgarður fékk er nánast fullkominn Húseyingur. 68 sentímetrar og metinn 3,4 kíló eða um sjö pund. Með hnakkaspik og silfraður.

Þið eruð að veiða svona fiska langt inn í vorið. Hvernig stendur á þessu?

Ólafur Ragnar segir að það séu skiptar skoðanir í hópnum. „Sumir vilja meina að hann sé í ánni allan veturinn en svo telja aðrir að þessar fiskar séu að flakka út í sjó og koma aftur. Menn eru ekki sammála,“ upplýsir hann. Hvort sem er þá eru þessir fiskar nánast vörumerki kvíslarinnar og menn leggja ýmislegt á sig á vorin til að komast í færi við þá.

Gott að komast aðeins í bílinn til að ná upp …
Gott að komast aðeins í bílinn til að ná upp hita. Það tókst og þeir eru áfram að veiða í dag. Ljósmynd/Ólafur R. Garðarsson

En í alvöru Óli. Þetta er varla á sig leggjandi?

Hann hlær. „Veistu. Ég er sammála. Þetta var svo algerlega á mörkunum. Over the top og svakalegasta opnun sem ég hef tekið þátt í.“

Takk fyrir að viðurkenna það. Eru þið komnir í bæinn?

„Nei. Við erum enn í Skagafirðinum og ætlum að kíkja á vökina aftur á eftir.“

Löng þögn.

„Veðrið er betra núna. Hægari vindur og hitinn dansar á núllinu. Okkur langar í fleiri og nú vitum við um þá og búið að vinna erfiðisvinnuna.“

Þeir félagar voru vopnaðir ísöxum þegar þeir opnuðu veiðistaðinn Nýja brú í gær. Það þarf einbeittan veiðivilja til að taka ísöxi með sér í veiðitúr. En hún átti eftir að reynast notadrýgsta tækið í ferðinni.

Steini búinn að leggja frá sér ísöxina og þessi líka …
Steini búinn að leggja frá sér ísöxina og þessi líka flotti birtingur kominn á land. Ljósmynd/Valgarður Ragnarsson

Af mörgum hetjusögum sem sagðar hafa verið frá opnunardegi 1. apríl 2024 þá fá fjórmenningarnir í Húseyjarkvísl fyrstu verðlaun. Það er ekki annað hægt en að taka hatt sinn ofan fyrir slíkri elju. „Já. Það má alveg kalla þetta geðveiki eða einhvers konar einhverfu. Ég bara skil það vel,“ sagði Ólafur Ragnar þegar við kvöddum hann og framundan var að koma mörðum skrokknum í klakasprengdar vöðlur á nýjan leik.„

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert