Súpan sem bjargar okkur í haustlægðinni

Góð súpa er allt sem þarf á haustdögum sem þessum.
Góð súpa er allt sem þarf á haustdögum sem þessum. mbl.is/Anders Schønnemann

Það fer ekkert á milli mála að við erum dottin inn í árstíðarskipti. Þá færum við okkur frá útigrillinu og yfir í pottana í eldhúsinu. Súpur eru það allra besta þegar haustlægðin liggur yfir landinu – ein sem yljar manni um kroppinn á meðan við heyrum í rigningunni berja á gluggana. Þessi súpa er með núðlum og portobello-sveppum en það má vel bæta kjúklingi saman við til að hún verði matarmeiri.

Súpan sem bjargar okkur í haustlægðinni (fyrir 2)

  • 1 msk. engifer, smátt saxað
  • 2 stór hvítlauksrif, marin
  • 2 tsk. sítrónugras, smátt saxað
  • 1 msk. rautt karrí (eða eftir smekk)
  • ólífuolía
  • 8-10 dl grænmetiskraftur eða vatn
  • 2 msk. fiskisósa
  • safi úr ½ lime
  • 2 tsk. sykur

Fylling:

  • 3 portobello-sveppir í skífum
  • 100 g grænar baunir
  • ólífuolía
  • salt
  • núðlur
  • ½ búnt vorlaukur
  • handfylli fersk mynta

Aðferð:

  1. Steikið engifer, hvítlauk, sítrónugras og rautt karrí upp úr smávegis af olíu í potti, samt ekki þannig að hráefnin taki lit. Setjið kraftinn eða vatnið út í og látið suðuna koma upp. Smakkið til með fiskisósu, lime og sykri – látið malla í 5-10 mínútur.
  2. Steikið sveppina upp úr olíu á heitri pönnu. Gufusjóðið baunirnar í nokkrar mínútur upp úr saltvatni.
  3. Sjóðið núðlurnar og setjið í tvær stórar skálar ásamt sveppum, baunum, vorlauk og myntu. Hellið heitri súpunni yfir og berið strax fram.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert