Hamborgarar af galloway- og limosin-kyni

Í byrjun sumars var í fyrsta skipti hér á landi boðið upp á sérvalið skagfirskt nautakjöt af galloway- og limosin-kyni. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og muna forsvarsmenn Hagkaups, þar sem kjötið var selt, ekki eftir viðlíka viðtökum.

Von er á nýrri sendingu innan skamms og að sögn Sigurðar Reynaldssonar, framkvæmdastjóra Hagkaups, hangir kjötið núna til að það verði meyrt og mjúkt. Hins vegar hafi verið ákveðið að nota hluta afurðanna í hakk.

„Það er yfirleitt ákveðinn hluti sem fer í hakk en við ákváðum að setja stærri hluta og bjóða upp á hakk í gæðum sem hefur ekki áður verið boðið upp á hérlendis. Kjötið sem notað er í þetta hefur aldrei frosið og heldur því fullkomnum gæðum, eitthvað sem við leggjum mikið upp úr í okkar verslunum árið um kring,“ segir Sigurður en boðið verður upp á hakkið nú um helgina í verslunum Hagkaups og verður bæði hægt að fá hakkið í ferskt í 500 gr. pakkningum og hins vegar í tilbúnum 120 gr. Smash Style-hamborgurum.

Að sögn Sigurðar er mikil eftirvænting hjá Hagkaup með kjötið enda breytir það töluvert miklu fyrir íslenska nautgriparækt að geta boðið upp á afurðir í þessum gæðaflokki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert