Maður augnabliksins er uppistandarinn, þáttastjórnandinn og útgáfumógúllinn Björn Bragi Arnarsson sem er þessa dagana að gefa út tvær bækur sem búast má við að eigi eftir að seljast í bílförmum enda tvær af skærustu stjörnum samfélagsmiðla þar á ferðinni; þær Sólrún Diego og Linda Ben.
Að auki ber Björn ábyrgð á tveimur gríðarvinsælum spilum sem landsmenn hafa slegist um en þetta eru að sjálfsögðu Pöbbkviss og Krakkakviss.
Við fengum að leggja nokkar spurningar fyrir Björn – sem klikkaði ekki fremur en fyrri daginn.
---
Nafn?
Björn Bragi Arnarsson.
Atvinna?
Uppistandari, sjónvarpsmaður og útgefandi. Draumurinn var samt alltaf að vinna á vídeóleigu og þegar VHS-spólan kemur með comeback sný ég mér að því.
Jólamaturinn?
Það hefur verið svolítið breytilegt hvað er í jólamatinn. Ég veit ekkert hvað er í vændum þessi jólin. Það er gott að lifa í smá óvissu.
Uppáhaldssósan?
Góð spurning! Ætli það sé ekki brún sósa sem pabbi gerir. Ég veit ekkert hvað er í henni en ég gæti drukkið svona hálfan lítra af henni á dag.
Uppáhaldshúsverkið?
Þvotturinn. Ég er svakalegur í að brjóta saman handklæði. Annars er ég góður í öllum húsverkum. Ég kenndi Sólrúnu Diego allt sem hún kann.
En það leiðinlegasta?
Að skúra. Ég hef aldrei komist almennilega upp á lagið með það.
Hvað ertu að gera þessa dagana?
Undirbúa tökur á undanúrslitum spurningaþáttarins Kviss og gefa út bækur og spil. Um þessi jól erum við með bækur Sólrúnar Diego og Lindu Ben. sem eru báðar ótrúlega flottar. Svo er endurprentun af spilunum Pöbbkviss og Krakkakviss á leiðinni í næstu viku. Endurprentunin er reyndar langt komin með að seljast upp í forsölu, sem er ákveðið lúxusvandamál.
Af hverju eru spilin Pöbbkviss og Krakkakviss svona vinsæl?
Ég held að það sé fyrst og fremst því spurningarnar eru skemmtilegar, nútímalegar og um hluti sem fólk hefur áhuga á. Við erum minna í því að spyrja um hluti sem gerðust á 12. öld. Ég elska líka að allir geti verið með og það er ekki endilega mesti spurninganördinn sem vinnur.
Er það rétt að þú sért kallaður bókahvíslarinn?
Það væri reyndar geggjað viðurnefni.
Hvernig útskýrirðu velgengnina?
Ég vinn við það sem ég hef ástríðu fyrir og starfa með skemmtilegu og hæfileikaríku fólki. Ég held að það sé góð uppskrift að velgengni.