Nýverið kom spennandi matreiðslubók út eftir Hönnu Þóru Helgadóttur, sem segir bókina handhæga uppskriftabók um ketómataræði – sem hefur notið sívaxandi vinsælda hér á landi. Við náðum tali af Hönnu Þóru sem deilir einnig með okkur uppáhaldsuppskriftinni sinni.
Bókin heitir „KETÓ – Hugmyndir – Uppskriftir – Skipulag“ og inniheldur einfaldar uppskriftir sem allar eiga það sameiginlegt að vera vera sykur-, hveiti- og glútenlausar og henta því öllum, sama hvort þú ert á sérstöku mataræði eða vilt minnka sykur- og kolvetnaneyslu.
„Ketó var það sem breytti öllu fyrir mína heilsu. Og að upplifa það að vera á sérstöku mataræði, en alltaf södd og sæl eftir að borða góðan mat – það var dásamleg tilfinning, og allt öðruvísi upplifun að vera á mataræði heilsunnar vegna en líða samt eins og ég sé frjáls,“ segir Hanna Þóra.
Hvað var bókin lengi í vinnslu?
Mig hafði lengi dreymt um að gefa út uppskriftabók, en ég fann hvað áhuginn fór á flug eftir að ég byrjaði sjálf á ketó fyrir rúmum tveimur árum. Ég hef verið að útbúa uppskriftir í nokkur ár og þegar ég missti vinnuna sem flugfreyja hjá Icelandair í sumar sá ég tækifæri til að geta nýtt tímann og komið þessum uppskriftum saman á prent ásamt fróðleik um ketó sem ég hafði verið að miðla síðasta árið. Það var ekkert annað í stöðunni en að hoppa út í djúpu laugina og hefjast handa. Það liggur alveg ótrúlega mikil vinna á bak við eina bók með myndatökum, textasmíð og uppskriftum svo ekki sé minnst á uppvaskið sem fylgir svona uppskriftastússi. En Þegar maður hefur ástríðu fyrir verkefninu skilar það sér svo sannarlega í gegn.
Hvað er helst á döfinni hjá þér þessa dagana?
Þessa dagana er ég er koma bókinni í sölu í öllum helstu Hagkaupsverslunum ásamt því að undirbúa vefverslunina mína sem er að fara í loftið inni á síðunni minni hannathora.is.
Ég er að sinna alls konar spennandi verkefnum í tengslum við fyrirtækið mitt sem sérhæfir sig í markaðssetningu á kolvetnaskertum vörum úr ýmsum áttum og er að undirbúa mjög stórt verkefni sem fer í loftið í byrjun árs 2021.
Ertu byrjuð að undirbúa jólin, og hvað borðar þú á jólunum?
Ég er í raun löngu byrjuð í jólastússi þetta árið enda nokkur afar skemmtileg jólaverkefni bæði í sjónvarpi og blöðum sem eru að koma út núna fyrir hátíðarnar. Það má eiginlega segja að jólin hafi komið extra snemma í ár með bókasendingum og girnilegum ketóhátíðaruppskriftum, sem var alveg dásamlegt.
Á jólunum er ávallt nautalund hjá mér með góðu meðlæti og rauðvínssósu, en oftast er ég nánast spenntari fyrir afgöngunum daginn eftir. Á jóladag elda ég girnilegar ketósteikarsamlokur með afgangsnautalund, smjörsteiktum sveppum, béarnaisesósu og parmesan. Það er eitthvað við það að jólin séu komin og allir anda örlítið léttar og slaka á með góðum mat og skoða jólagjafirnar aftur á jóladag á náttfötunum.
Hver er uppáhaldsuppskriftin þín úr bókinni – viltu deila henni með okkur?
Ein af mínum uppáhaldsuppskriftum er stökki ketókjúklingaborgarinn með heimagerða hrásalatinu. Þetta er einn af þeim réttum sem ég elda ávallt viljandi alltof mikið af í kvöldmatinn og bíð spennt eftir að hita upp daginn eftir.
Þennan borgara geta allir gert og það er auðvelt að skella honum í ketóbrauð eða venjuleg brauð fyrir þá sem borða slíkt. Ein uppskrift sem allir útfæra eftir sínum þörfum, þannig vil ég hafa uppskriftinar.
Ketó kjúklingaborgari með spicy hrásalati
Marinering
Raspur – krydd er smekksatriði, en það má alltaf hafa hann sterkari eða mildari.
Hrásalat
Aðferð: