Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem galdrar fram það sem við viljum meina að sé meistaraverk! Hér gefur að líta vatnsdegisbolluhring sem ætti svo sannarlega að vekja lukku.
Vatnsdeigsbollukaka með hindberjafyllingu og lakkrísbráð
Vatnsdeigshringur uppskrift
- 180 g smjör
- 360 ml vatn
- 200 g hveiti
- 1 tsk. lyftiduft
- ¼ tsk. salt
- 3-4 egg (160 g)
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti í skál og geymið.
- Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit (gott að leyfa að sjóða í að minnsta kosti eina mínútu) og takið þá af hellunni.
- Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleif þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
- Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni.
- Pískið á meðan eggin saman í skál og setjið þau saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli. Best er að vigta blönduna því egg eru misstór og nota aðeins 160 g af henni til þess að deigið verði ekki of þunnt.
- Setjið bökunarpappír á ofnplötu, teiknið stóran hring á miðjuna (t.d með matardisk). Teiknið síðan annan lítinn hring inn í hann (t.d með morgunverðarskál).
- Setjið bolludeigið í sprautupoka og klippið stórt gat á endann (um 5 cm) og sprautið í hring á milli hringjanna sem þið teiknuðuð (athugið að deigið mun lyfta sér um að minnsta kosti helming á alla kanta).
- Bakið í 50-60 mínútur eða þar til toppurinn og botninn er orðinn vel gylltur. Ekki opna þó ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 40 mínútur til að kíkja undir. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka vatnsdeig ekki nógu lengi og þá fellur það frekar.
- Kælið bollukökuna og skerið hana síðan í sundur áður en þið fyllið hana.
Hindberjafylling
- 700 ml rjómi
- 2 msk. flórsykur
- 1 krukka hindberjasulta frá St. Dalfour (284 g)
- 250 g Þristur (smátt niðurskorinn)
- Fersk hindber
Aðferð:
- Þeytið saman rjóma og flórsykur þar til rjóminn er stífþeyttur.
- Blandið sultunni og Þristinum varlega saman við með sleif þar til bleikur og fallegur hindberjarjómi hefur myndast.
- Sprautið eða smyrjið á milli, raðið hindberjum hér og þar í rjómann og setjið efri hlutann ofan á.
Lakkrísbráð og skraut
- 300 g bingókúlur
- 80 ml rjómi
- fersk blóm
Aðferð:
- Bræðið kúlur og rjóma saman í potti við vægan hita þar til kekkjalaus lakkrísbráð hefur myndast.
- Kælið þar til lakkrísbráðin fer að þykkna (hrærið reglulega í henni til að finna áferðina) og smyrjið henni þá yfir bollukökuna.
- Skreytið að lokum með ferskum blómum.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir