Meistari Albert Eiríks kann ekki að klikka og hér er hann með sjóðheita uppskrift að lærissneiðum í raspi sem eru í uppáhaldi hjá ansi mörgum.
„Lærissneiðar í raspi var sunnudagsmatur hjá mörgum á síðustu öld. Mjúkar lærissneiðar með brúnuðum kartöflum, grænum baunum og rabarbarasultu má segja að sé einn af mörgum íslenskum þjóðarréttum. Klassískur bragðgóður matur. Hugsið ykkur ekki tvisvar um gott fólk,“ segir Albert og við hlýðum.
Lærissneiðar í raspi
Gott er að hafa kjötið við stofuhita. Setjið hveiti í skál, brjótið eggin í aðra skál og sláið þau í sundur og setjið rasp í þriðju skálina. Setjið olíu og smjör á pönnu, ágætt að hafa tvo hluta af olíu á móti einum af smjöri. Veltið lærissneiðunum upp úr hveitinu, þá eggjunum og loks raspinu. Steikið sneiðarnar dágóða stund í olíunni/smjörinu á báðum hliðum þangað þær eru fallega brúnar. Kryddið með salti og pipar. Raðið sneiðunum í eldfast form, hellið restinni af olíunni yfir, setjið álpappír yfir og eldið í 100°C heitum ofni í um klst.
- - -
Fylgstu með Matarvefnum á Instagram. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita ...
Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl