Meistari Albert færir okkur vikumatseðilinn

Albert „eldar“ færir okkur ljúffengan vikumatseðil.
Albert „eldar“ færir okkur ljúffengan vikumatseðil. mbl.is/Kristinn Magnússon

Matarbloggarinn, smekkmaðurinn, royalistinn og vinsælasti matargestur landsins, Albert „eldar“ Eiríksson – færir okkur vikumatseðilinn þessa vikuna. Sérvalinn og afskaplega girnilegur matseðill ef þið viljið okkar alveg hlutlausa mat.

Mánudagur:
Mánudagar eru fiskidagar, við erum í átaki að borða oftar fisk – a.m.k. þrisvar í viku og það er skemmtilegt átak. Gott að byrja matarvikuna á fiskibollum í brúnni lauksósu.

Þriðjudagur:
Vinur okkar gaf okkur hreindýrahakk sem verður að hreindýrabollum sem Guðlaugur Þór er búinn að þróa og mastera – alveg sjúklega góðar bollur hjá ráðherranum sem er þrusukokkur.

Miðvikudagur:
Hluti af fiskiátakinu er að borða feitan fisk, þannig að lax og aðrir feitir fiskar eru oft á borðum. Stundum geri ég mitt pestó sjálfur og nota þá aðeins góða ólífuolíu í hana. Það er gott að hafa í huga að olíur eru misgóðar og mishollar. Fiskiuppskrift sem getur ekki klikkað.

Fimmtudagur:
Sjúklega góði mangó chutney-kjúklingarétturinn, einfaldur fljótlegur og öllum líkar vel.

Föstudagur:
Nýjasta uppáhaldsmatarlandið mitt er Portúgal. Hef farið þangað nokkrum sinnum og aldrei orðið fyrir vonbrigðum. Í Portúgal er sagt að til séu 365 uppskriftir að saltfiski en ég er viss um að þær eru mun fleiri.

Laugardagur:
Það er gaman að halda í hefðir, ég er alinn upp við hrísgrjónagraut í hádeginu á laugardögum. Eins og kunnugt er getur verið vandasamt að sjóða hrísgrjónagraut, hann getur ýmist orðið of þunnur, þykkur eða vill brenna við. Skotheld aðferð er að láta suðuna koma upp á löngum tíma, slökkva þá undir og pakka pottinum inn í handklæði, svuntur og fleira og láta standa þannig í nokkra tíma.

Sunnudagur:
Hægeldaður lambahryggur með bernaise-sósu. Gaman að upplifa hvað bernaise er komin í tísku enn og aftur. Alvöru-bernessósa er einstaklega ljúffeng og passar vel með lambakjöti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka