Yngsti matreiðslubókahöfundur landsins hittir í mark

Elín Heiða ásamt móður sinni, Berglindi Hreiðarsdóttur.
Elín Heiða ásamt móður sinni, Berglindi Hreiðarsdóttur.

Mat­reiðslu­bóka­höf­und­ur­inn og eld­hús­gyðjan Berg­lind Hreiðars­dótt­ir hef­ur sent frá sér sína þriðju bók og að þessu sinni rétti hún dótt­ur sinni, El­ínu Heiðu, stjórntaum­ana og lét hana sjá um all­an bakst­ur. Útkom­an er hreint frá­bær; fal­leg bók sem er upp­full af frá­bær­um upp­skrift­um sem all­ir ráða við.

„Ég fæ auðvitað alltaf allt of marg­ar hug­mynd­ir, þessi poppaði upp fyr­ir meira en ári og ég losnaði hrein­lega ekki við hana úr koll­in­um,“ seg­ir Berg­lind aðspurð hvernig það hafi komið til að hún ákvað að gera bók með dótt­ur sinni. „Síðan nefndi ég þetta við El­ínu Heiðu í upp­hafi árs og hún varð mjög spennt og þá varð eig­in­lega ekki aft­ur snúið! Mér fannst líka al­veg vanta á markaðinn bók fyr­ir krakka. Það er allt of mikið um að börn í dag séu bara föst við skjá­inn en flest­um börn­um finnst gam­an að baka og það er svo mik­il­vægt að þau fái aðeins að æfa sig í eld­hús­inu.“

„Sam­starfið gekk bara mjög vel. Auðvitað varð Elín stund­um þreytt á þessu enda erfitt að vera inni að „vinna“ um há­sum­ar þegar all­ir aðrir eru úti að leika. Hún stóð sig samt eins og hetja og það brut­ust út mik­il fagnaðarlæti þegar hún kláraði síðustu upp­skrift­ina, seg­ir Berg­lind en Elín Heiða sá um alla mat­reiðslu á meðan móðir henn­ar var bak við mynda­vél­ina og sá um um­brot og hönn­un bók­ar­inn­ar. „Ég mátti ekk­ert aðstoða nema tína til „props“, vaska upp og mynda fín­eríið frá henni. Hún sagði reglu­lega við mig: „Mamma, ÉG er að gera þessa bók“ ef ég ætlaði eitt­hvað að reyna að flýta fyr­ir.

„Síðan hlóg­um við stund­um þegar hún hafði gert krumpaðar boll­ur, skreytt eitt­hvað aðeins skakkt eða álíka en þá sagði hún líka við mig: „Mamma, það á að líta út fyr­ir að barn hafi gert þessa bók er það ekki.“ Allt var þetta auðvitað rétt hjá henni og ég ætla að fá að hrósa henni fyr­ir að gera þetta allt svona fal­legt fyr­ir mig að mynda þó ég hafi sann­ar­lega stund­um viljað skipta mér af – en ég stóðst mátið.“

Skemmti­leg­ast að baka brauðmeti

„Brauðmeti verður ansi oft fyr­ir val­inu þegar við bök­um sam­an eins og boll­ur, pizza­kodd­ar, skinku­horn, pizza­snúðar og þess hátt­ar. Síðan elsk­um við ef­laust meira að baka og skreyta pip­ar­kök­ur, það er al­veg hápunkt­ur des­em­ber hjá stelp­un­um mín­um. Kannski mun okk­ur líka tak­ast að setja sam­an pip­ar­köku­húsið í ár sem keypt var í Costco í fyrra og stelp­urn­ar fá að skreyta það með öllu því nammi sem þar fylg­ir,“ seg­ir Berg­lind en mat­ar­bloggið henn­ar Gotte­rí og ger­sem­ar er eitt allra vin­sæl­asta mat­ar­blogg lands­ins og hef­ur að geyma haf­sjó girni­legra upp­skrifta.

Ómet­an­legt sam­starf

Það kom Berg­lindi veru­lega á óvart að eig­in sögn hvað Elín Heiða var dug­leg og ein­beitt á að klára þetta. Hún hafi tekið verk­efnið ótrú­lega al­var­lega og skilað því vel. „Hún er ótrú­lega vand­virk og dug­leg í öllu sem hún tek­ur sér fyr­ir hend­ur. Hún ger­ir skyr­köku óaðfinn­an­lega svo ég ætla að segja hún sé flink­ust í því,“ seg­ir Berg­lind en Elín Heiða seg­ir sjálf að sér hafi komið mest á óvart hvað það taki lang­an tíma að búa til bók.

Berg­lind seg­ir bók­ina vera fyr­ir alla þó hún sé sett upp með það í huga að börn sem kunna að lesa og þekkja aðeins til í eld­hús­inu sínu geti bjargað sér sjálf með þær upp­skrift­ir sem í henni er að finna. „Upp­skrift­irn­ar eiga það all­ar sam­eig­in­legt að vera ein­fald­ar og góm­sæt­ar og þar er ógrynni af þess­um „gömlu góðu“ upp­skrift­um svo mömm­ur og pabb­ar mega klár­lega nota hana líka.“

Bakst­urs­ráð Berg­lind­ar og El­ín­ar Heiðu

Hvaða bakst­urs­ráð getið þið gefið fólki?
  • Lesa vel yfir upp­skrift­ir og taka til öll hrá­efni áður en haf­ist er handa, þá geng­ur allt miklu bet­ur.

Hvað á maður að baka marg­ar sort­ir?

  • Eins marg­ar og mann lang­ar til!

Hvernig er hægt að koma í veg fyr­ir að maður borði all­ar smá­kök­urn­ar strax?

  • Setja strax nokkr­ar í frysti... en samt eig­in­lega ekki því þær eru lang­best­ar nýbakaðar!

Hvað á ein sort að end­ast lengi?

  • Mjög stutt, best að borða þær strax. Baka bara minna og oft­ar og njóta þeirra á meðan þær eru brak­andi fersk­ar og ljúf­feng­ar! Flest­ar smá­kök­ur eru líka best­ar ylvolg­ar með ís­kaldri mjólk svo þetta seg­ir sig sjálft.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert