Heilsuráðin sem geta breytt lífi þínu

Heilsukokkurinn Kristjana Steingrímsdóttir.
Heilsukokkurinn Kristjana Steingrímsdóttir. mbl.is/Ásdís

Hvernig er best að koma sér aftur í gott heilsuform eftir annasaman tíma í mat og drykk? Við fengum Kristjönu Steingrímsdóttur eða Jönu, eins og hún er kölluð, til að gefa okkur góð ráð til að koma okkur aftur á beinu brautina.

Jana flutti heim til Íslands síðasta sumar frá Lúxembourg, þar sem hún var hluteigandi í heilsu og matsölustaðnum Happ. En þar hefur hún eldað hollan og næringarríkan mat frá árinu 2010 og hefur haldið óteljandi matreiðslunámskeið með fræðslu um heilsusamlegar leiðir í að bæta mataræðið með meiri hollustu.

„Það er ótrúlegt hvað má gefa fólki endalausar hugmyndir með hráefnum á borð við grænmeti, ávöxtum, kryddjurtum, hnetum og fræjum. Og þá fer fólk að bæta inn í líf sitt nýjum eldunar aðferðum, fá nýjar hugmyndir og þar með bæta mataræðið sitt. Allir hafa gott af því að bæta meiru hollustu inn í líf sitt og því meira af hollu sem þú borðar því minna þarf maður oft á óhollustu að halda þar sem líkaminn fær góða næringu og er mettur af næringarefnum,” segir Jana.

Bestu heilsuráðin í boði Jönu

  1. Skipuleggðu vikuna og settu þér einföld markmið. Fókusaðu bara á fá atriði í einu, það þýðir ekkert að ætla að breyta öllu hjá sér á einni viku. Ef þú ætlar að breyta lífstílnum þínum til lengri tíma þarftu að koma góðum rútínum inn í líf þitt og gera þær að vana - bæta svo smátt og smátt við nýjar rútínur sem verða svo að vana.
  2. Borðaðu nóg af trefjum, grænmeti, ávöxtum, fræjum, hnetum, góðum olíum og góðu próteini. Og sem minnst af unnum matvælum og skyndibita mat.
  3. Ég mæli með því fyrir þá sem eru mjög uppteknir og hafa lítinn tíma í vikunni að nota hluta úr helginni í að undirbúa og skipuleggja vikuna. Versla inn hollan mat, skera niður mikið grænmeti og undirbúa - svo auðvelt sé að grípa í það í ísskápnum og þegar verið er að elda, þá fer minni tími í það að græja hollan og næringarríkan mat. Ég grilla oft mikið grænmeti og get þá notað í alls kyns meðlæti, súpur og salöt út vikuna og þetta sparar mjög mikinn tíma.
  4. Drekktu mikið af vatni, oft mistúlkum við svengd fyrir þorsta.  Vatn er allra besti drykkur sem við getum fengið og sniðugt að bragðbæta það með sítrónu, appelsínusneiðum, agúrkusneiðum, engiferjarót, myntu o.fl.
  5. Gott er að byrja alla daga á stóru vatnglasi og hafa svo alltaf vatn meðferðist svo það sé auðveldara að muna að drekka það.
  6. Hreyfing er mikilvæg fyrir andlega og líkamlega líðan. Finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og reyndu að gera eitthvað alla daga - og ekki verra ef þú getur hreyft þig utandyra. Ekki skemmir ef þú getur fengið vin eða vinkonu með þér. Göngutúrar, skokk, hlaup, sund, léttar æfingar eða teygjur er frábært fyrir flesta.
  7. Svefn er ótrúlega mikilvægur hluti af heilbrigði og það ætti að vera forgangsatriði að búa til góða svefnrútínu sem reynt er að fara eftir sem oftast. Reynið að fara að sofa á sama tíma á kvöldin og vakna á sama tíma, helst alla daga vikunnar. Það hjálpar að minnka skjánotkun eftir kvöldmat og hafa rólega rútínu nokkrum tímum fyrir svefn.
  8. Ekki tileinka þér „allt eða ekkert“ hugarfar. Stöðugleiki er lykillinn að góðri líkamlegri heilsu. Að lokum - ekki vera of harður/hörð við sjálfan þig því góðir hlutir gerast hægt og það er mikilvægt að gera lífstílsbreytingu heldur en að fara á einhvern tísku kúr sem oftast er erfitt að halda í langan tíma.

Jana deilir hollum, næringarríkum og auðveldum uppskriftum á Instagram síðunni sinni HÉR - en heimasíða er væntanleg í loftið, fyrir þá sem vilja fylgjast með ævintýrum hennar í eldhúsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka