Artur Chilingarov heldur á mynd sem sýnir rússneska fánann sem komið var fyrir á hafsbotni Norðurpólsins. Chilingarov var leiðangursstjóri ferðarinnar, sem vakti ugg meðal þeirra ríkja er deila um yfirráð á Norðurskautinu. (Reuters)
Ísland á ekki tilkall til hafsbotns í Norður-Íshafinu en það er Íslendingum í hag að deilurnar verði leystar á friðsaman hátt og þær verði ekki til þess að takmarka aðgang að svæðinu.

Deilurnar snúast um yfirráð og aðgang að auðlindum hafsbotnsins og eftirlit með siglingaleiðum. Talið er að 25% óuppgötvaðra olíu- og gasauðlinda í heiminum geti verið finna á Norðurheimskautinu. Bandaríkin, Kanada, Danmörk, Rússland og Noregur eru þau strandríki sem eiga land að Norður-Íshafinu og landgrunnsréttindi þar.

Fjögur síðastnefndu ríkin hafa fullgilt hafréttarsamninginn og geta því lagt fram greinargerð til landgrunnsnefndarinnar. Það geta Bandaríkin ekki fyrr en þau fullgilda samninginn.

Krafa Rússa á norðurskauti
(Smellið til að skoða stærra kort)
Rússland

Krafa Rússa er tvíþætt. Annars vegar telja þeir sig hafa umsjónarrétt á siglingaleiðum frá Síberíu allt að Norðurpólnum vegna skyldu strandríkja til að tryggja öryggi á hafíssvæðum. Kröfuna byggja Rússar á því að svæðið sé ekki alþjóðlegt þar sem það er enn ófært flestum skipum.

Hins vegar telja rússneskir vísindamenn sig geta sannað að að stór hluti hafsbotns Norðurskautsins, út frá svokölluðum Lomonosov-hrygg sem nær frá ströndum Síberíu að Norðurpólnum, sé hluti af evróasíska landflekanum. Á þeim grundvelli vísa þeir til alþjóðlegra laga um landgrunnsréttindi strandríkja utan 200 sjómílna.

Sérfræðingar annarra ríkja eru flestir sammála um að Rússar hafi ekki rétt á svo víðáttumiklu svæði. Þá er krafan talin álíka langsótt og ef Skotland krefðist yfirráða í Bandaríkjunum á þeim grundvelli að landflekarnir voru á einu tímabili jarðsögunnar fastir saman. Þá verði hún einnig að teljast hæpin þar sem umræddur hryggur er almennt talinn til neðansjávarhryggja í skilningi 76. gr. hafréttarsamningsins og hámarksvíðátta landgrunns á slíkum hryggjum er 350 sjómílur frá ströndum

Þá eru stundaðar strandsiglingar á hafsvæðinu milli rússnesku eyjanna úti fyrir Síberíu. Rússar líta á það svæði sem innhaf og taka gjald af skipum sem sigla þar um, þrátt fyrir að sá réttur hafi ekki fengið alþjóðlega viðurkenningu.

Noregur

Jonas Gåhr Støre, utanríkisráðherra Noregs

Noregur á landamæri að Norður-Rússlandi og leggja Norðmenn því áherslu á góð samskipti við Rússa, sem vilja ganga til samninga um skiptingu landgrunnsins í Barentshafi.

Eftir sameiningu Statoil og Norsk Hydro er stærsta olíufyrirtæki í heimi í eigu Norðmanna og þar sem olíusvæði við norðurskautið eru að stórum hluta inni á svæði Rússa eru góð samskipti mikilvæg. Því til marks hefur utanríkisráðherrann, Jonas Gahr Støre, heimsótt utanríkisráðherra Rússlands oftast allra erlendra utanríkisráðherra.

Fyrir utan Rússa eru Norðmenn þeir einu sem þegar hafa skilað inn greinargerð til landgrunnsnefndarinnar með kröfum sínum á Norður-Íshafinu. Norskir vísindamenn telja hluta svæðisins tilheyra Noregi en ekki Norðurpólinn sjálfan.

Forsætisráðherra Kanada ásamt landverði á Norðurskautinu í ágúst á þessu ári, þegar Kanadamenn opnuðu aftur tvær herstöðvar til þjálfunar á hermönnum og þjóðvarðsliðum sem hafa eftirlit með svæðinu. Reuters.
Kanada

Kanadamenn eru andstæðingar Bandaríkjanna í þessu máli. Kanadamenn vilja slá eign sinni á hafsvæðið vestan Grænlands, en Bandaríkjamenn álíta það vera alþjóðlega hafsvæði. Á fundi forseta Bandaríkjanna með Steven Harper, forsætisráðherra 21. ágúst síðastliðinn lýsti Harper yfir áhyggjum af táknrænum leiðangri Rússa á Norðurpólinn.

Bandaríkin

Bandaríkin hafa ekki staðfest hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, þrátt fyrir að eiga m.a. langa strandlengju að Norður-Íshafinu í Alaska, eða um 16.000 km. Til þess að geta lagt fram greinargerð til landgrunnsnefndar S.þ. verða ríki að staðfesta samninginn.

George Bush, Bandaríkjaforseti

Í kjölfar vaxandi ágreinings milli Bandaríkjamanna og Rússa eru sífellt fleiri á þeirri skoðun að Bandaríkin eigi að staðfesta hafréttarsamninginn og taka þátt í slagnum. Rússar hafa ekki staðfest samning milli ríkjanna um mörkin milli efnahagslögsögu þeirra í Beringssundi frá árinu 1990, og segjast þeir vilja endurskoða samninginn í ljósi breyttra aðstæðna.

Danmörk, fyrir hönd Grænlands

Danir lögðu af stað í rannsóknarleiðangur stuttu eftir að Rússar settu upp fána á hafsbotni Norðurpólsins og telja þeir að landgrunnið þar tilheyri Grænlandi og þar með Danmörku.

Vonin um olíu hefur leitt til þess að sífellt fleiri Grænlendingar krefjast sjálfstæði frá Danmörku, en bandarískir vísindamenn halda því jafnframt fram að norður af Grænlandi gæti verið að finna olíu- og gasauðlindir

Viðbrögð forsætisráðherra Danmerkur, Anders Fogh Rasmussen, við rússneska leiðangrinum á Norðurpólinn voru þau að Danmörk væri á þessu stigi málsins ekki að undirbúa kröfu um landgrunnsréttindi á Norðurheimskautinu. Stuttu síðar var haft eftir vísindaráðherranum, Helge Sander, að Danir muni taka þátt í kapphlaupinu, þar sem danskir vísindamenn telji að Norðurpóllinn tilheyri Danmörku.

< Fyrri síða   |   Upphafssíða    |   Næsta síða >