Hugsanlegt er að olía finnist á svonefndu Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg og á Hatton-Rockall svæðinu enda svipar þeim til svæða þar sem þegar hefur fundist olía við Noregsstrendur og norðan við strendur Bretlands.
Drekasvæðið norðaustur af Íslandi |
Drekasvæðið tilheyrir íslenskri lögsögu, en um hluta svæðisins gildir samningur milli Íslands og Noregs frá 1981 um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen og þekur sá hluti 12.720 ferkílómetra innan þess, eða tæplega þrjá tíundu hluta svæðisins.
Fyrr á þessu ári lagði iðnaðarráðuneytið fram til umsagnar skýrslu með tillögu að áætlun um útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á norðanverðu Drekasvæði.
Auðlindarannsóknir á svæðinu eru fólgnar í jarðeðlisfræðilegum mælingum á vegum íslenskra og norskra stjórnvalda og olíuleitarfyrirtækja í einkaeigu. Þær þykja gefa vísbendingar um að olíu og gas kunni að vera að finna þar í vinnanlegu magni. Sannreyna þarf hins vegar með frekari rannsóknum, þar á meðal með rannsóknarborunum, hvort olíu sé að finna á svæðinu.
Hatton Rockall-svæðið
Kröfur um landgrunnsréttindi (Smellið til að skoða stærra kort) |
Allt frá árinu 1985, eða rétt áður en Íslendingar staðfestu hafréttarsamninginn, hefur staðið yfir deila milli Íslands, Bretlands, Írlands og Danmerku, fyrir hönd Færeyja, um yfirráð yfir landgrunninu á Hatton Rockall-svæðinu. Síðastliðin ár hefur verið ræddur sá möguleiki að skipta svæðinu milli ríkjanna eða nýta það sameiginlega. Gert er ráð fyrir að samið verði þar um áður en sameiginleg greinargerð verður lögð fyrir landgrunnsnefndina, þar sem hún getur ekki fjallað um umdeild svæði nema með samþykki allra deiluaðila.
Jack Straw mætir á vorfund NATO á Íslandi árið 2002. (Mbl.is/Kristinn) |
Óformlegar viðræður fóru fyrst fram milli allra deiluaðila í málinu í Reykjavík árið 2001 og hefur viðræðunum verið haldið áfram með reglubundnum hætti síðan. Í janúar árið 2006 funduðu þáverandi utanríkisráðherra Íslands, Geir H. Haarde, og Bretlands, Jack Straw, og töldu þeir eftir fundinn að Hatton-Rockall málið væri í réttum farvegi. Næsti fundur um málið verður haldinn í Reykjavík í lok september.
Samningur Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga um Síldarsmuguna
Í september árið 2006 var undirritað samkomulag milli Íslands, Noregs og Danmerkur, fyrir hönd Færeyja, um skiptingu landgrunns utan 200 sjómílna í suðurhluta Síldarsmugunnar. Samkomulagið markar tímamót í landgrunnsmálum á Norðaustur-Atlantshafi.
Skipting Síldarsmugunnar (Smellið til að skoða stærra kort) |
Samkomulagið felur í sér viðurkenningu á landgrunnsréttindum Íslands yfir 29.000 ferkílómetra svæði í beinu framhaldi af íslensku efnahagslögsögunni norðaustur af landinu. Danmörk/Færeyjar fékk 27.000 ferkílómetra í sinn hlut. Noregur hafði gert tilkall til umfangsmeiri landgrunnsréttinda í suðurhluta Síldarsmugunnar, bæði út frá meginlandi Noregs og frá Jan Mayen, og fékk 55.000 ferkílómetra í sinn hlut.
Hver aðili samningsins mun leggja fram greinargerð til landgrunnsnefndarinnar til að sýna fram á tilkall sitt til jafnstórs hafsbotnssvæðis og samkomulagið kveður á um að hann skuli fá í sinn hlut.
Eftir að tillögur landgrunnsnefndar berast munu ríkin ganga frá þremur formlegum tvíhliða samningum, þar sem kveðið verður endanlega á um afmörkun landgrunnsins þeirra á milli.
Niðurstaða samningsins er af mörgum ástæðum hagstæð fyrir Ísland. Hún er m.a. til þess fallin að auka almennan trúverðugleika Íslands sem ríkis er gerir tilkall til landgrunnsréttinda utan 200 sjómílna. Þá getur samkomulagið um skiptingu landgrunnsins á Síldarsmugunni haft mikilvægt fordæmisgildi fyrir Hatton Rockall-málið.