Hvað er til ráða ef konan vill ekki kynlíf?

Theodór Francis Birgisson segir að fólk í sambandi verði að …
Theodór Francis Birgisson segir að fólk í sambandi verði að geta talað um kynlíf sitt. Samsett mynd

Theo­dór Franc­is Birg­is­son, klín­ísk­ur fé­lags­fræðing­ur hjá Lausn­inni, svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem er ósátt­ur við konu sína. 

Hæ. 

Ég og konan mín erum búin að vera gift í 22 ár. Við stundum kynlíf á 3 mánaða fresti. Þegar ég tek utan um hana segir hún mér að láta sig í friði. Ég þarf alltaf að segja við hana taktu utan um mig því hún gerir það ekki á sjálfdáðu. Hún segir mér að henni finnist það vont og hún hafi ekki áhuga. Hún segir líka við mig að kynlíf sé ekki mikilvægt. Ég er að spyrja mig hvort ég hafi gert eitthvað á hennar hlut. Ég veit ekki hvað ég tolli lengi í þessu sambandi. Stundum langar mig að halda framhjá henni því ég þarf kynlíf og væntumþykju sem ég fæ ekki frá henni. Hvað á ég að gera? 

Kveðja,

B

Ljósmynd/Unsplash

Sæll og blessaður og takk fyrir þessa spurningu.

Mig tekur sárt að heyra að þetta sé staðan hjá ykkur og ég skil vel að þú sért leiður og dapur yfir þessu ástandi. Allir af okkar tegund (Homo sapiens) eru kynverur og hafa að upplagi þörf á kynlífi. Það er hins vegar gríðarlega hátt hlutfall para sem á í einhverskonar erfiðleikum með kynlíf sitt.

Þau sem eiga ekki erfitt með kynlíf eiga það sameiginlegt að þau tala um kynlíf sitt. Mín fyrsta spurning til þín er því, hversu oft talið þið um kynlíf og hafið þið rætt um hvað kveikir kynlöngun þína og hennar.

Mörg pör sem ég hef hjálpað í gegnum starfsferil minn vita ekki svarið við þessari einföldu spurningu. Ef ég veit ekki hvað kveikir í maka mínum þá er býsna ólíklegt að mér takist að vekja hjá henni áhuga á kynlífi.

Ef maki minn veit ekki sjálf hvað kveikir í henni þá er afar ólíklegt að ég viti það. Samtal er því nauðsynlegt. Þegar komin er upp staða eins og hjá ykkur myndi ég óhikað segja að þið þurfið utanaðkomandi hjálp.

Ég myndi því ráðleggja ykkur að leita ráðgjafar hjá viðurkenndum samtalsmeðferðar aðila (e. Therapist) þar sem þið mynduð meðal annars fá speglun á hvað veldur því að konan þín hefur ekki áhuga á kynlífi. Þar geta verið bæði líffræðilegar ástæður eða tilfinningalegar. Í langflestum tilfellum er hægt að laga ástandið hver sem uppruni vandans er. Með von um að þetta hjálpi þér og þá ykkur báðum.

Kær kveðja,

Theodór

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál