Íslenskur karl leitar ráða vegna leiðinlegrar eiginkonu

Theodór Francis Birgisson svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann …
Theodór Francis Birgisson svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá Jóni sem er orðinn svo leiður á eiginkonu sinni. Samsett mynd

Theodór Francis Birgisson klín­ísk­ur fé­lags­ráðgjafi hjá Lausn­inni fjöl­skyldu- og áfallamiðstöð svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá leiðum eiginmanni sem leitar ráða. 

Sæll Theodór! 

Ég er búinn að vera kvæntur konunni minni í 25 ár. Við eigum þrjú börn en við ákváðum að eignast þriðja barnið þegar smá þreyta var komið í sambandið. Þetta er allt eftir bókinni hjá okkur! Það hressti okkur við um tíma en núna er allt svolítið farið að súrna. Stóru  börnin eru komin yfir tvítugt og ég get svo sem ekki sagt að þau séu miklir skemmtikraftar. Þau eru frekar leiðinleg. 

Auðvitað elska ég konuna mína en hún er líka orðin ferlega leiðinleg. Ef hún er ekki að skipa mér og krökkunum fyrir eða röfla yfir því að einhver setti klósettsetuna ekki niður eða þurrkaði af borðplötunum í eldhúsinu, þá er hún að tala illa um vinnufélaga sína og kemur með nastí athugasemdir um fólk sem við þekkjum varla. Hún hatar til dæmis alla áhrifavalda en hangir samt á Instagram öllum stundum þegar við erum heima. 

Eitt lítið dæmi: 

Foreldrar mínir eru orðnir gamlir og hún meikar ekki að heimsækja þau því henni finnst svo vond lykt heima hjá þeim. 

Ég er að velta fyrir mér hvað ég geti gert. Mest langar mig bara að vera með vinum mínum, drekka bjór með þeim og horfa á leiki á Ölveri. Ég veit hinsvegar að það er engin lausn. Getur þú ímyndað þér hvað er að herja á konuna mína? Er þetta breytingaskeiðið eða verða konur bara svona með aldrinum? Eða er ég sjálfur orðinn svona hræðilega leiðinlegur? Er algengt að heimilislíf fimm manna fjölskyldu verði svona súrt?  

Kveðja, 

Jón. 

Getur verið að Jón sé á breytingaskeiðinu án þess að …
Getur verið að Jón sé á breytingaskeiðinu án þess að átta sig á því? Mohamed Hamdi/Unsplash

Sæll Jón og takk fyrir spurninguna.

Mér finnst þetta svo skemmtilegt bréf að ég hef enga trú á að þú sért sjálfur leiðinlegur. Ég er reyndar alls ekki sannfærður um að allir í fjölskyldunni séu svona leiðinlegir, mér finnst mun líklegra að þið hjónin eigið það sameiginlegt að líða ekki vel. Þið eruð langt frá því að vera eina parið sem reynið barneignir til að hressa upp á parsambandið. Það eru til mun betri og árangursríkari leiðir til að gera sambandið betra. Mér finnst gott að heyra að þú elskir konuna þína ennþá. Það væri ótrúlega gagnlegt fyrir þig að rifja upp „af hverju elska ég hana“? Þegar þú finnur svör við því væri gott að fara yfir í huganum, „hversu oft segi ég henni það“? 

Ef svarið við því er að þú gerir það til dæmis sjaldnar en einu sinni á dag þá ertu kominn með ótrúlega spennandi verkefni sem mun án nokkurs efa breyta líðan konunnar þinnar. Ég skil vel að þig langi að eiga tíma með vinum þínum og horfa á íþróttaleiki og drekka gerjað vatn. Það er í raun mikilvægt í parsambandi að eiga félagslíf utan við sambandið, en það er líka gríðarlega mikilvægt að eiga líf með maka sínum. Þar vaknar enn önnur spurning „hvað myndi mig langa að gera með maka mínum sem við erum ekki að gera núna“? Sem leiðir okkur að mikilvægasta atriði parsambandsins, „eruð þið að tala saman“? Stærsta vandmál í öllum parsamböndum er að pörin eru í raun ekki að tala saman. Það getur verið að varir beggja aðila hreyfist og sam- og sérhljóðar flæði út en það þýðir ekki að um sé að ræða samræður. Það getur allt eins verið tvennar einræður. Einræður geta líka hljómað sem ærandi þögn, en tvær einræður eru ekki samræður.  

Breytingarskeiðið er hluti vegferðar allra kvenna. Við strákarnir upplifum ekki allir breytingarskeiðið þó að það sé mun algengara en karlmenn oft gera sér grein fyrir. Ef til vill ert þú sjálfur á breytingarskeiðinu án þess að vita það. Það væri því gagnlegt fyrir þig að fara í blóðprufur og láta mæla hormónabúskap þinn.  

Það er því miður algengt að parsambönd súrni og þau gera það flest af sömu ástæðu; Fólk er ekki að tala saman. Ég hef áður sagt hér í svari við annarri spurningu að grasið er ekki grænna hinum megin, það er grænna þeim megin sem það er vökvað. Bréfið þitt hljómar eins og þið séuð löngu hætt að vökva ykkar garð. Þar myndi ég byrja. 

Ég vona að þetta hjálpi.

K.kv Theodór  

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Theodór spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál