Fermingarkjóllinn er enn uppi í skáp hjá mömmu

Kristín Edda Óskarsdóttir reynir að hafa umhverfishverfiðssjónarmið í huga.
Kristín Edda Óskarsdóttir reynir að hafa umhverfishverfiðssjónarmið í huga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fermingarkjóllinn sem Kristín Edda Óskarsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri fataleigunnar SPJARA, fermdist í árið 1998 er enn til. Hún notaði kjólinn þó ekki lengi en í dag leggur hún mikið upp úr notagildi fatnaðar. Þegar kemur að tísku mæðra fermingarbarna er stemning fyrir ljósari litum og sniðum og stílum sem hæfa tilefninu.

„Ég man mjög vel eftir fermingunni minni, sérstaklega undirbúningnum. Það var mikið tilstand og allt eftir bókinni, margt að hugsa um fyrir móður mína sérstaklega. Ég man vel eftir því að amma mín tók virkan þátt og sá til þess að ég hefði hanska og svona mikilvæg smáatriði eins og áritaða sálmabók og kerti frá nunnunum í Hafnarfirði merkt mér,“ segir Kristín Edda sem fermdist í Hjallakirkju í Kópavogi.

Alltaf viljað fara óhefðbundnar leiðir

„Kjólar sem þá voru kallaðir „kínakjólar“ voru í tísku á þessum tíma og allar stelpur keyptu þá í Sautján. Ég hef alltaf viljað fara aðeins óhefðbundnar leiðir í fatavali og var mamma óþreytandi með mig í búðum að leita að einhverju smá öðruvísi, hafði sennilega mjög gaman af en oftar en ekki heyrði ég hana segja „það sem þú ert með í huga er sennilega ekki framleitt“. Ég endaði á súkkulaðibrúnum blúndu-„kínakjól“. Það vill enginn vera of öðruvísi á þessum árum. Ég var í þykkbotna sandölum sem voru aðalmálið á þessum tíma. Ég var með stutta klippingu og eldri systir mín greiddi mér eða setti spennuna í hárið á mér, það var nú öll greiðslan. En hún málaði mig líka og ég man mjög vel eftir því vegna þess að þetta var í fyrsta skipti sem að ég mátti mála mig. Það var stórt að fá að vera með „make up“ og ekki aftur snúið eftir það.

Veislan var haldin heima og öllu mínu fólki boðið, fólk kom úr öðrum landshlutum til að eyða með okkur deginum og mér fannst það í minningunni mjög stórt og skemmtilegt. Það var öllu til tjaldað, gott ef ekki að minnsta kosti eitt herbergi var málað fyrst von var á gestum. Það var lambalæri sem vinur foreldra minna grillaði á kolagrilli fyrir mannskapinn og kransakökuturn með kaffinu. Í framhaldi af veislunni fór fjölskyldan öll í myndatöku ásamt heimiliskettinum Tomma.“

Kristín Edda segir einhverra hluta vegna fermingarkjóla verða fljótt úrelta. „Ég notaði kjólinn alveg örugglega í mesta lagi í fermingarveislur vinkvenna en hann er enn þá til uppi í skáp hjá mömmu. Það hefði mögulega verið sniðugt að leigja sér kjól fyrir ferminguna þó það væri ekki nema fyrir þá staðreynd að fermingarkjólar verða furðufljótt úreltir.“

Kristín Edda Óskarsdóttir keypti fermingarkjólinn í Sautján á sínum tíma.
Kristín Edda Óskarsdóttir keypti fermingarkjólinn í Sautján á sínum tíma. Ljósmynd/Aðsend

Elegant og falleg snið

Fermingardagar eru hátíðisdagar og segir Kristín Edda mæður fermingarbarna leitast við að klæða sig upp á fyrir daginn. „Fjölskyldan býður oft til veislu og þá er mjög viðeigandi að vera í sínu fínasta. En á sama tíma er þetta dagur barnsins og við viljum alls ekki stela senunni eða draga athyglina frá barninu að dressi mömmunnar. Fallegir kjólar eða toppar við sparilegar buxur væru mjög viðeigandi. Fermingar eru oft svona vorboði þannig að þá er oft stemning fyrir léttari efnum og ljósari litum. Ég myndi mæla með að leita meira í elegant stíl og falleg snið. Ég er mikið gefin fyrir fallegar litasétteringar, hugsanlega óþarfa smáatriði en það er sniðugt að huga aðeins að heildarmyndinni og litapallettu fjölskyldunnar. Sumir fara til ljósmyndara og þá kemur þetta vel út. Ég er ekki að tala um að fara mjög ýkta leið í þessu en það er fallegt að para ljósa liti eins og beige eða ljósbleika við dökkblá jakkaföt.“

Kristín Edda segir betra fyrir umhverfið og budduna að leigja flík fyrir fín tilefni þar sem oft hanga sparifötin ónotuð inni í skáp. Fyrirtækið hennar, SPJARA, leigir út merkjavörur og lýsir hún fataleigunni eins og stóru systur sem á troðfullan fataskáp af góssi. „Við erum með kjóla, toppa, jakka og veski fyrir sparileg tilefni. Mörg sem koma til okkar eru einmitt með sérstakan viðburð framundan sem getur verið stór eða smár og eru að leita sér að flík sem passar við tilefnið,“ segir Kristín Edda og segir það geta létt á álagi fermingarmæðra í aðdraganda ferminga að koma og máta fín föt og panta tímanlega. „Eina sem væri eftir í vikunni fyrir fermingu væri að sækja dressið. Það gerir svo mikið fyrir daginn og sjálfstraustið að vera í fallegri flík, í fallegu sniði sem manni líður vel í,“ segir hún.

Kristín í brúnum og hvítum kjól frá Rodebjer.
Kristín í brúnum og hvítum kjól frá Rodebjer. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Kristín dökkbláum kjól frá Stine Goya.
Kristín dökkbláum kjól frá Stine Goya. mbl.is/Eggert Jóhannesson


Styttist í fermingu elsta barnsins

Það er ár í það að Kristín Edda verði fermingarmamma. „Það er aðeins farið að ræða þetta og dóttir mín er sennilega komin lengra í þeim pælingum en hún lætur uppi. Ég er alveg viss um að það sé nú þegar komið Pinterest-borð með hugmyndum. Mér finnst líklegt að við skoðum fyrst að fá lánað eða kaupa í endursöluverslunum áður en við kaupum nýtt. Mér finnst líka mjög snjallt að huga að notagildinu. Kaupa flík sem nýtist henni áfram, á skólaball, í afmæli og aðrar veislur eða önnur sparileg tilefni. Mikilvægast af öllu er þó að fötin endurspegli fermingarbarnið og að það njóti sín sem best í þeim fatnaði sem verður fyrir valinu. Dóttir mín er með mjög fallegan stíl og mikil smekkkona, ég hlakka mikið til að fara í þennan hluta undirbúningsins með henni. Varðandi veislur þá er líka mikilvægt að fermingarbarnið sé haft með í ráðum og hafi það fólk í kringum sig í veislunni sem það langar til. Við eigum stóra og nána fjölskyldu svo ég reikna með að veislan verði nokkuð fjölmenn. Eins er held ég hollt að ræða gjafir og svona hvaða væntingar barnið hefur, hugsanlega er það að safna sér fyrir einhverju og þá er bara snjallt að láta vita af því svo það sé ekki verið að gefa eitthvað sem hvorki vantar né löngun er í.“

Umhverfisvæn hugmyndafræði SPJARA teygir sg líka inn á heimili Kristínar Eddu. „Ég á þrjár dætur og er mjög dugleg að nýta föt af eldri fyrir þær yngri. Ég versla mikið í Barnaloppunni, sérstaklega fyrir þær yngstu, byrja yfirleitt alltaf þar ef mig vantar eitthvað. Svo er málið kannski líka að kaupa það sem vantar, láta það jafnvel vanta, þá kemst maður að því að sumt er óþarfi. Mér finnst það líka ágætis uppeldisráð að stökkva ekki til að kaupa allt sem okkur dettur í hug þegar okkur dettur það í hug. Ég hef líka nýtt spariföt þannig að hægt sé að nota þau áfram, jólakjólar verða að afmæliskjólum sem verða að leikskólakjólum.“

Hálsmenið keypti Kristín Edda notað fyrir mörgum árum og er …
Hálsmenið keypti Kristín Edda notað fyrir mörgum árum og er það í miklu uppáhaldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frelsandi að skila hlutum

Ef hugsað er í lausnum er líka óþarfi að kaupa allt nýtt fyrir ferminguna. Kristín Edda segir mjög frelsandi að skila dóti eftir notkun í stað þess að koma því fyrir inni í geymslu. „Mæður, tengdamæður og frænkur liggja sennilega margar á hvítum dúkum, eiga stell sem þær vilja lána eða blómavasa. Það er líka hægt að leigja borðbúnað glös og fleira sem er brilljant. Ég mæli líka með að fermingarforeldrar tali sig saman, hugsanlega er hægt að samnýta skreytingar. Ég er voðalega lítið fyrir einnota skraut, finnst alltaf fallegra að skreyta með lifandi blómum eða greinum sem hægt er að tína úti, svo er spurning hvort við mæðgur séum sammála þar.“

Svarti og hvíti kjólinn er frá Stine Goya. Það er …
Svarti og hvíti kjólinn er frá Stine Goya. Það er vorlegt að vera með ljósbláa peysu við eins og Kristín gerir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kristín Edda segir að gamalt úr afa hennar hafi öðlast nýtt líf þegar hún fékk það í útskriftargjöf. Gjöfin sýnir að fermingargjafir þurfa ekki endilega að kosta mikið til þess að vera góðar. „Mér finnst ótrúlega sniðugt að gefa gamla skartgripi, þetta er kannski ráð til ömmu og afa, sem eiga hugsanlega marga fallega skartgripi eða úr. Það er dýrmætt fyrir fermingarbarn að eignast fallega gripi frá ættingjum sem þeim þykir vænt um, það skapar fallega tengingu. Ég fékk úrið hans afa míns sem var mér náinn og mjög kær þegar ég útskrifaðist og mér þykir óendanlega vænt um það. Það er hægt að fara með úr til úrsmiðs og skartgripi til gullsmiðs og láta minnka og fríska upp á,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál