Fermdist ein í sóknarkirkju fjölskyldunnar í Hróarstungu

Guðrún Katrín Helgadóttir fermdist í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu þann 2. …
Guðrún Katrín Helgadóttir fermdist í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu þann 2. júlí 2023. Ljósmynd/Tara Tjörva

Guðrún Katrín Helgadóttir fermdist í Kirkjubæjarkirkju í Hróarstungu þann 2. júlí 2023. Móðir hennar, Guðfinna Harpa Árnadóttir bóndi og ráðgjafi, segir fermingarundirbúninginn hafa gengið vonum framar og verið afar skemmtilegur enda hafi hann verið mikið samvinnuverkefni fjölskyldu og vina. 

„Kirkjubæjarkirkja er sóknarkirkjan okkar og þar hafa margar athafnir í fjölskyldunni farið fram – fermingar okkar systkinanna og skírnir okkar flestra, en þar var Guðrún skírð og bróðir hennar sömuleiðis. Kirkjan er falleg gömul sveitarkirkja með mikla sögu sem presturinn kom inn á í sinni ræðu. Guðrún fermdist ein og tók því töluvert mikið þátt í athöfninni með lestri og fékk að velja hluta af þeim sálmum sem voru sungnir. Það var mjög skemmtilegt,“ segir Guðfinna.

Kirkjubæjarkirkja er sjarmerandi gömul sveitakirkja með mikla sögu.
Kirkjubæjarkirkja er sjarmerandi gömul sveitakirkja með mikla sögu.

Að athöfn lokinni var fermingarveislan haldin í félagsheimilinu Tungubúð sem er rétt við kirkjuna og voru gestir um 90 talsins.

„Guðrún, foreldrar mínir og systur voru með mér í matarstússinu. Síðustu dagana fyrir ferminguna bættist svo föðurfólkið hennar Guðrúnar við, í skreytingarnar og uppsetninguna á salnum og veisluhaldið sjálft auk þess sem ómetanleg vinkona mín aðstoðaði á lokametrunum og í veislunni sjálfri. Svo áttum við mæðgur skemmtilegar samverustundir þegar við vorum að velja skó og skart, í tímanum hjá naglafræðingnum og að velja ljósmyndir til að framkalla í skreytingar og fleira og fleira,“ segir Guðfinna.

Guðrún tekur undir með móður sinni, en henni þótti gaman að eyða tíma með fjölskyldunni í undirbúningnum. „Mér finnst mjög skemmtilegt að plana og græja og gera. Skemmtilegastur þótti mér dagurinn sem við vorum að klára að skreyta og það var líka góð reynsla að baka kransakökuna,“ segir hún.

Mægðurnar Guðfinna og Guðrún segja fermingarundirbúninginn hafa gengið afar vel.
Mægðurnar Guðfinna og Guðrún segja fermingarundirbúninginn hafa gengið afar vel.

Frumraun mæðgnanna í kransakökubakstri

Guðfinna segir Guðrúnu hafa lagt mikið af mörkum í undirbúninginn. „Guðrún lagði mikið af mörkum í undirbúningi. Bæði hafði hún mjög skýra sýn á hvernig hún vildi haga veislunni, veitingum og skreytingum og var líka mjög dugleg í undirbúningnum sjálfum bæði við það sem við gerðum með löngum fyrirvara og eins dagana fyrir ferminguna,“ segir hún. 

„Við gerðum nánast allar veitingarnar sjálf og það er mikil vinna sem hún tók þátt í. Til dæmis bakaði hún litlar marengsrósir sem við fylltum með rjóma og berjum, aðstoðaði við að gera ostakökur í lítil glös og við hjálpuðumst að við að baka kransakökuna og það var frumraun okkar beggja í kransakökubakstri,“ bætir hún við. 

Guðfinna segir Guðrúnu hafa tekið virkan þátt í undirbúninginum, en …
Guðfinna segir Guðrúnu hafa tekið virkan þátt í undirbúninginum, en þær mæðgur hjálpuðust að við að baka kransakökuna.

Í veislunni var fermingarbarnið með Kahoot-spurningaleik um sig sjálfa og ýmislegt sem tengist hennar áhugamálum og afþreyingu, en Guðfinna segir það hafa slegið rækilega í gegn í veislunni. „Það var virkilega skemmtilegt og mikið hlegið. Vinahópurinn hennar rúllaði því auðvitað upp en aðrir lærðu örugglega eitthvað um fermingarbarnið,“ segir Guðfinna.

„Við vorum svo með krukku og litla miða þar sem gestir gátu sent henni heilræði eða sett fram ágiskanir um framtíðarstarf. Það var líka myndabás og hvöttum við yngra fólkið til að taka eldra fólkið með sér þangað til að fá myndir af gestum,“ bætir hún við.

Í veislunni var krukka og litlir miðar þar sem gestir …
Í veislunni var krukka og litlir miðar þar sem gestir gátu sent fermingarbarninu heilræði.

Hvernig skreytingar voruð þið með í veislunni?

„Við skreyttum borðin með villiblómavöndum í litlum glærum flöskum, teljósum í fallegum kertastjökum, ljósmyndum af Guðrúnu sem við framkölluðum hjá Prentagram og dreifðum um borðin og fallegum áprentuðum servíettum.

Föðuramma Guðrúnar gerði blómvendina úr blómum af staðnum og þeir settu mikinn svip á salinn. Aðrar skreytingar í salnum voru stór blöðrubogi í þemalitunum, blöðrur skreyttu líka myndabásinn og svo voru há kerti í stjökum og auðvitað fermingarkertið, sálmabók og gestabók á hliðarborði. Við hengdum líka upp keppnisgallann hennar sem hún notar í fimleikunum og ljósmyndir af henni.“

Salurinn var fallega skreyttur með villiblómum, blöðruboga, kertum og ljósmyndum.
Salurinn var fallega skreyttur með villiblómum, blöðruboga, kertum og ljósmyndum.

En veitingar?

„Við gerðum langstærsta hlutann af veitingunum frá grunni og vorum með allt í smáréttaformi. Guðrún réði öllum réttunum og þeir voru fjölbreyttir og kannski svolítið ósamstæðir en það var gaman að geta sagt frá því að þarna væri sýnishorn af hennar uppáhaldsréttum og allir hefðu átt að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Einn réttur bættist til dæmis við eftir fermingu hjá frænku hennar því Guðrúnu fannst hann svo góður.“

Guðrún bakaði þessar girnilegu marengsrósir sem voru fylltar með rjóma …
Guðrún bakaði þessar girnilegu marengsrósir sem voru fylltar með rjóma og berjum.

„Við vorum með ósætt hlaðborð og svo sætt hlaðborð. Á ósæta hlaðborðinu var grafinn lax, heitreykt gæs og grafið ærkjöt og brauð með. Svo vorum við með snittur með pestó-tómata-og mozzarellasalati, litlar kjötbollur, kjúklinga- og lambagrillspjót, beikonvafðar döðlur og heitan brauðrétt í muffinsútfærslu. Á sæta hlaðborðinu var kransakaka, litlar ostakökur, marengsrósir með rjóma og berjum, litlar súkkulaðikökur sem heita svartigaldur og er hefð fyrir í flestum boðum í fjölskyldunni og með þessu voru jarðarber, franskar makkarónur og kransabitar.“

Hér má sjá hluta af veitingunum sem prýddu sæta borðið.
Hér má sjá hluta af veitingunum sem prýddu sæta borðið.

Vildi hafa litaþema í stíl við kjólinn

Spurðar út í litaþemað segist Guðrún hafa viljað hafa litaþemað í stíl við kjólinn sem hún valdi sér, en kjóllinn er fagurblár frá versluninni NA-KD og skórnir frá JoDis.

„Við vorum með bláan lit í skreytingum og svo hlýja grábrúna, beige-lita og ljósbleika tóna á móti í blöðrum og servíettum. Fermingarkjóllinn var í bláu og Guðrún bað okkur í nánustu fjölskyldunni að vera í bláu líka og það kom mjög vel út á fjölskyldumyndunum að við værum svona aðeins í stíl, þó tónarnir væru ólíkir,“ segir Guðfinna.

Fjölskyldan klæddi sig upp í stíl við litaþemað sem kom …
Fjölskyldan klæddi sig upp í stíl við litaþemað sem kom skemmtilega út í fermingarmyndatökunni. Ljósmynd/Tara Tjörva

Mæðgurnar voru sammála því að það skemmtilegasta við daginn hafi verið að eyða tíma með fjölskyldu og vinum. „Mér fannst mjög gaman að eyða tíma saman og hitta allt fólkið og borða góðan mat. Mér fannst líka gaman að fara að fara í hárgreiðslu og græja mig fyrir daginn,“ segir Guðrún. 

„Ég segi sama og Guðrún, dagurinn var mjög skemmtilegur með fjölskyldunni og vinunum. Athöfnin sjálf var líka í miklu uppáhaldi hjá mér, hátíðleg og Guðrún stóð sig svo vel í því sem hún tók þátt í,“ segir Guðfinna. 

Guðrúnu fannst skemmtilegast að hitta fjölskyldu sína og vini á …
Guðrúnu fannst skemmtilegast að hitta fjölskyldu sína og vini á fermingardaginn og borða góðan mat.

Spurðar hvort eitthvað stress hafi fylgt deginum segjast mæðgurnar báðar hafa verið frekar rólegar. „Ég var smá stressuð yfir því að allt yrði örugglega tilbúið og að verða of sein. Annars var ég ekki svo stressuð,“ segir Guðrún. 

„Ég var ótrúlega lítið stressuð fyrir þessu, það var margt fólk með okkur í þessu öllu og það gekk allt svo vel upp,“ segir Guðfinna. 

Ef þið væruð að halda veisluna í dag, er eitthvað sem þið mynduð gera öðruvísi?

„Ég veit eiginlega ekki um neitt sem ég myndi gera öðruvísi, ég var bara mjög ánægð með þetta,“ segir Guðrún. 

„Það eina sem ég myndi gera öðruvísi væri að setja ekki símann minn í myndabásinn þannig að ég ætti fleiri tækifærismyndir úr veislunni. Næst þegar ég fermi reyni ég að hafa símann við höndina og ég hugsa að ég fái jafnvel einhvern úr fjölskyldunni til að sjá um að taka tækifærismyndir.

Myndirnar úr myndabásnum eru margar skemmtilegar og myndirnar frá ljósmyndaranum okkar frábærar en mér finnst hinar vanta. Til dæmis á ég lítið af myndum af salnum tilbúnum, myndum af veisluborðinu, fólki á spjalli, fólki að óska fermingarbarninu til hamingju o.s.frv. Fæst erum við með ljósmyndara í fermingarveislu eins og brúðkaupsveislu en þetta eru myndir sem gaman væri að eiga – og við erum upptekin sjálf í að spjalla við gesti og halda veislu með því sem því tilheyrir,“ segir Guðfinna. 

Guðrún ásamt vinkonum sínum í veislunni.
Guðrún ásamt vinkonum sínum í veislunni.

Vildi hafa öðruvísi fermingargreiðslu

Spurð hver besta fermingargjöfin hafi verið nefnir Guðrún tvennt. „Ég fékk MacBook Air fartölvu sem ég myndi segja að væri besta gjöfin og svo fékk ég líka ferðatöskur sem eru nú þegar búnar að nýtast mjög vel,“ segir Guðrún. 

Eins og fram hefur komið var fermingarkjóllinn pantaður á NA-KD og skórnir frá JoDis. Guðrún segist alltaf hafa viljað vera með öðruvísi hárgreiðslu á fermingardaginn og var virkilega sátt með útkomuna. „Ég var með sex litlar fasta fléttur upp frá andlitinu og upp á mitt höfuðið. Svo var ég með bylgjur í hárinu neðan við þær,“ segir Guðrún. 

Fermingargreiðsluna gerði Erla Bjarnadóttir á Stjörnuhár á Egilsstöðum.
Fermingargreiðsluna gerði Erla Bjarnadóttir á Stjörnuhár á Egilsstöðum.

Guðfinna segist í fyrstu hafa verið örlítið efins með kjólinn og greiðsluna en lokaútkoman hafi verið glæsileg. „Kjóllinn var pantaður á netinu og sem betur fer passaði hann og fór henni vel. Hún vildi óvenjulegan kjól fyrir fermingarkjól og vildi líka öðruvísi greiðslu en allir aðrir. Ég var pínu efins með það fyrst en var svo virkilega ánægð með allt á deginum sjálfum og hún fékk mikið hrós frá gestum fyrir hvort tveggja,“ segir Guðfinna. 

Á fermingardaginn var Guðrún með XOXO-eyrnalokka frá Vera Design og …
Á fermingardaginn var Guðrún með XOXO-eyrnalokka frá Vera Design og Kaðals-hálsmen frá bylovisa. Ljósmynd/Tara Tjörva

Hvað er ómissandi á fermingardaginn að ykkar mati?

„Það er ómissandi að hafa einhverja skemmtun eða afþreyingu eins og Kahoot-spurningarleik eða eitthvað svoleiðis – eitthvað til að gera í veislunni. Svo fannst mér nammibarinn okkar mjög næs,“ segir Guðrún. 

„Svo ég sé nú bara væmin þá er bara tvennt sem er virkilega ómissandi á svona degi, annars vegar að hafa fjölskyldu og vini til að samgleðjast með sér. Hvort sem það er stór hópur eða nánasta fólkið. Hitt sem er ómissandi er að hafa ánægt fermingarbarn og þá skiptir mestu máli að setja sínar hugmyndir sem foreldris til hliðar og hlusta á þeirra hugmyndir og skoðanir um það hvernig á að haga deginum,“ segir Guðfinna.

Fermingarmyndirnar voru teknar af Töru Tjörvadóttur við félagsmheimilið á milli …
Fermingarmyndirnar voru teknar af Töru Tjörvadóttur við félagsmheimilið á milli kirkjuathafnar og veislu. Fjölskyldan var ánægð með vel heppnaðar myndir og myndvinnslu. Ljósmynd/Tara Tjörva
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert