Það er nýr farði mættur sem tók titilinn „dýrasti farði Íslands“ en hvað veitir farði þér sem kostar 26.380 kr.? Hér verður skoðað nánar hvað er í formúlunni og hvernig farðinn virkar en þar sem TikTok-stjarnan Mikayla Nogueira hefur þegar lofað farðann þá rennir blaðamaður ekki algjörlega blint í sjóinn.
Auðvitað hristu sumir hausinn þegar ég sagði þeim að ég væri að prófa nýkrýndan dýrasta farða Íslands: Sisleÿa Le Teint Anti-Age Foundation frá Sisley Paris sem kostar litlar 26.380 íslenskar krónur. „Kemur hann í staðinn fyrir sálfræðinginn?“ spurði vinkona mín. Ég gat ekki svarað þeirri spurningu en veit að góðar snyrtivörur geta sannarlega haft upplífgandi áhrif, þó þær kannski blási ekki upp björgunarbátinn í lífsins ólgusjó.
Sisley Paris segir Sisleÿa Le Teint Anti-Age Foundation búa yfir öflugum náttúrulegum innihaldsefnum til að vinna gegn ótímabærum öldrunarmerkjum en á meðal innihaldsefna er persnesk kasía fyrir aukna frumuorku og uppsprettu ljóma. Húðin verður því bjartari og jafnari við notkun dag eftir dag. Sisley Paris segir farðann veita ungleg förðunaráhrif, húðin verður ljómandi, slétt og helst farðinn vel á. Sisley Paris segir einnig að andlitið endurheimti aukinn sléttleika og stinnleika ungrar húðar á aðeins 4 vikum, svo loforðin eru sannarlega í takt við verðmiða farðans. Umbúðir farðans eru sérlega fallegar, mött glerflaska með hvítum og gylltum tappa, og léttur blómailmur er af farðanum sem truflaði mig ekki. Ásetningin var mjög auðveld, það var eins og ég væri að bera á mig andlitskrem frekar en farða og húðin virkaði vissulega sléttari og þekjan í léttara lagi, ég gat síðan byggt farðann upp í góða miðlungsþekju fyrir fullkomnari ásýnd. Það kom mér á óvart að farðinn virkaði meira mattur á húðinni frekar en ljómandi. Fyrsta upplifun var því jákvæð en ég átti von á ljómameiri ásýnd í takt við vörulýsingu Sisley Paris.
Eftir því sem ég hélt áfram að nota farðann þá kunni ég að meta hversu auðvelt var að stjórna þekjunni, ég gat bæði notað hann í náttúrulega hversdagsförðun og fyrir fínni tilefni. Þar sem áferðin er aðeins mött þá væri óvitlaust að eiga ljómandi farðagrunn til að nota með til að fá ljómameiri ásýnd. Ending farðans var mjög góð og entist hann allan daginn á húð minni, rúmlega 8 klukkustundir. Heilt yfir fannst mér Sisleÿa Le Teint Anti-Age Foundation mjög góður farði og það sparar tíma að nota formúlur sem eru blanda af förðun og húðbætingu. Eins fannst mér formúlan mjúk, nærandi og mér leið aldrei óþægilega í húðinni. Það besta við farðann fannst mér vera þegar leið á daginn og formúlan bráðnaði aðeins inn í húðina, þá virkaði hún sléttari og myndaðist einstaklega vel. Í raun hef ég ekkert neikvætt að segja um farðann en mér fannst lýsing Sisley Paris á því að farðinn geri húðina ljómandi kannski ekki standast á minni húð en ég tók þó eftir léttum og mjög fínlegum ljóma í ákveðinni birtu. Verðmiði farðans endurspeglar dýr plöntuefnin sem hann inniheldur og þá húðbætandi eiginleika sem hann býr yfir, mér fannst húðin mín verða aðeins áferðarfallegri með endurtekinni notkun. Þó svo dýr farði sé ekki nauðsynlegur, þá er þetta svipað og þegar kemur að handtöskum: þú getur geymt muni þína í þeim öllum en munurinn er á vinnunni á bak við vöruna, rannsóknum og gæðum hráefnisins. Ef þú hefur efni á svona dýrum farða þá geturðu notið þess að prófa hann en ef þú vilt ekki verja svo miklum peningum í farða þá eru aðrir farðar sem veita sambærileg förðunaráhrif þó þeir séu ekki endilega húðbætandi.
Til að sýna lesendum Sisleÿa Le Teint Anti-Age Foundation sem best fékk ég Lovísu Ólafsdóttur til að sitja fyrir í „fyrir og eftir“-myndatöku. Á myndunum má sjá Lovísu án farða, svo með eina umferð af farðanum, næst með tvær umferðir af farðanum og að lokum með heildarförðun. Lesendur geta því sjálfir sest í dómarasætið og séð áhrif hins dýra farða á Lovísu.