Fylkismenn neituðu að gefast upp

Andrés Már Jóhannesson og Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttu á …
Andrés Már Jóhannesson og Kristinn Freyr Sigurðsson í baráttu á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Eggert

Nýliðar Fylkis lentu 2:0 undir gegn Val þegar 20 mínútur voru til leiksloka á Hlíðarenda í kvöld en náðu í stig með 2:2-jafntefli þegar liðin mættust í 3. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.

Nokkurt jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum þó að Valsmenn hafi verið ívið sterkari. Haukur Páll Sigurðsson kom þeim yfir eftir rúmlega hálftíma leik með skalla við fjærstöng eftir hornspyrnu Kristins Freys Sigurðssonar. Fylkismenn vildu fá vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik þegar að Birkir Már Sævarsson togaði aðeins í treyju Jonathan Glenn, er þeir börðust um skallabolta innan teigs, en ekkert var dæmt.

Þetta var ekki eina skiptið sem Birkir og Glenn áttust við því á 63. mínútu virtist Glenn svo sannarlega eiga að fá víti, eftir að Birkir renndi sér í teignum án þess að ná til boltans og Glenn féll við. Aftur var ekkert dæmt. Valsmenn virkuðu frekar værukærir oft á tíðum í leiknum, og smám saman virtust Fylkismenn líklegir til að jafna metin. Þess í stað skoraði Sigurður Egill Lárusson hins vegar upp úr skyndisókn, eftir stutta sendingu Kristins Freys, þegar 20 mínútur voru til leiksloka. Staðan því 2:0.

Helgi Sigurðsson setti ferska menn inn í sóknarlínu Fylkis til að freista þess að minnka muninn og varamaðurinn Hákon Ingi Jónsson gerði það eftir hornspyrnu á 75. mínútu. Fylkismönnum gekk hins vegar lítið að skapa sér færi til að jafna metin þar til að Emil Ásmundsson fékk boltann nærri vítateignum og skaut honum af varnarmanni og í markið. Fylkismenn fögnuðu því frábæru stigi gegn Íslandsmeisturunum.

Valur 2:2 Fylkir opna loka
90. mín. Uppbótartíminn er þrjár mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert