Slæmur kafli kostaði okkur leikinn

Birkir Bjarnason í harðri baráttu við leikmenn Sviss á Laugardalsvelli …
Birkir Bjarnason í harðri baráttu við leikmenn Sviss á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er svekkjandi að hafa tapað þessum leik. Við vorum að spila vel, alveg þangað til við fáum fyrsta markið á okkur,“ sagði Birkir Bjarnason, miðjumaður íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Sviss í Laugardalnum í kvöld í 2. riðli Þjóðadeildar UEFA.

„Þetta var erfitt eftir fyrsta markið sem þeir skora og þegar að þeir komast 2:0-yfir þá varð þetta enn þá erfiðara þar sem við urðum að sækja mark á þá. Það er erfitt að átta sig á því nákvæmlega hvað fór úrskeiðis í þessum mörkum sem við fáum á okkur, svona stuttu eftir leik en við eigum að geta komið í veg fyrir bæði mörkin.“

Birkir segir að liðið geti vel byggt á frammistöðunni í síðustu tveimur leikjum gegn Frökkum og Sviss. Hann er hins vegar ósáttur með úrslitin í báðum leikjunum.

„Við erum búnir að spila vel í síðustu tveimur leikjum finnst mér. Við getum verið nokkuð sáttir með frammistöðuna en úrslitin eru vissulega svekkjandi. Þetta datt ekki með okkur í kvöld og slæmur kafli í seinni hálfleik kostar okkur leikinn,“ sagði Birkir Bjarnason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert