„Fannst þetta ekki víti“ - Jóhann úr leik gegn Andorra

Erik Hamrén á Laugardalsvellinum í kvöld.
Erik Hamrén á Laugardalsvellinum í kvöld. mbl.is/Eggert

„Ég er stoltur af leikmönnunum. Við gerðum allt sem við gátum en auðvitað er ég vonsvikinn með að fá ekki nein stig fyrir alla þessa vinnu og hugrekki sem leikmennirnir sýndu,“ sagði Erik Hamrén, landsliðsþjálfari í fótbolta, eftir 1:0-tapið gegn Frökkum í kvöld.

Aðspurður um Jóhann Berg Guðmundsson og Rúnar Má Sigurjónsson, sem báðir fóru meiddir af velli, sagði Hamrén ljóst að Jóhann yrði ekki með gegn Andorra á mánudag.

„Það er alltaf slæmt þegar menn meiðast, eins og við ræddum fyrir leik. Rúnar er spurningamerki fyrir mánudaginn. Ég veit ekki hve slæmt þetta er hjá honum. En Jói verður ekki með,“ sagði Hamrén.

Hamrén fékk gult spjald fyrir mótmæli vegna vítaspyrnudómsins þegar Ari Freyr Skúlason braut á Antoine Griezmann í leiknum, en Frakkar skoruðu sigurmark sitt úr vítinu.

Þurfum núna hjálp frá Frökkum

„Mér fannst þetta ekki víti en Ari sagði að þetta væri víti þó að það liti ekki þannig út,“ sagði Hamrén.

Tyrkland og Frakkland hafa nú sex stiga forskot á Ísland þegar þrjár umferðir eru eftir, en Tyrkir og Frakkar mætast í París á mánudag.

„Eitt stig hérna hefði getað breytt stöðunni talsvert [þar til að Tyrkir skoruðu gegn Albaníu], en núna þurfum við hjálp frá Frökkum. Ef þeir vinna Tyrki og við vinnum síðustu þrjá leikina komumst við á EM. Stig hefði kannski litlu breytt úr því að Tyrkir unnu svo á endanum, en við hefðum gjarnan viljað uppskera eitthvað í kvöld,“ sagði Hamrén.

Birkir kemur ekki lengur á óvart

Birkir Bjarnason átti afar góðan leik í kvöld en hann hefur verið án félagsliðs síðan í ágúst og sáralítið spilað með félagsliðum á öllu þessu ári. Hamrén treysti honum hins vegar og Birkir stóð fyrir sínu:

„Hann kemur mér ekki lengur á óvart. Hann spilar virkilega vel með okkur þó að hann hafi ekki spilað með félagsliði lengi. Hann sýnir gæði sín í hverjum leik en ég er ánægður með alla leikmennina. Ég sagði það í þessari viku, að við getum ekki gert meira en okkar besta og við gerðum það. Ég er mjög stoltur af öllu liðinu. Þeir ættu að vera stoltir líka. Kannski finnst þeim eftir nokkra daga að þeir hafi staðið sig vel gegn heimsmeisturunum, en menn vilja uppskera eitthvað.“

Haft Guðlaug Victor í huga síðan í júní

Guðlaugur Victor Pálsson lék í stöðu hægri bakvarðar í stað Hjartar Hermannssonar og Birkis Más Sævarssonar. Hamrén segir aðdragandann að því langan þó að valið kunni að hafa komið mörgum á óvart en Guðlaugur Victor er þekktari sem miðjumaður:

„Þegar við breyttum til í júní vorum við með Hjört og Gulla í þessa stöðu og unnum með þeim í henni. Hjörtur fékk tækifærið og stóð sig vel en ég vildi sjá gæði Gulla líka. Ég er sáttur með hans frammistöðu eins og annarra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert