„Hægt að finna verri lið til að treysta á“

Alfreð Finnbogason og Erik Hamrén ræða málin á fréttamannafundinum fyrir …
Alfreð Finnbogason og Erik Hamrén ræða málin á fréttamannafundinum fyrir hádegið í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Alfreð Finnbogason segir stöðu Íslands ekki hafa breyst mikið við tapið gegn Frakklandi á föstudagskvöld og er bjartsýnn á að Ísland verði með örlögin í eigin höndum í síðustu leikjunum í undankeppni EM í fótbolta.

Eftir föstudagskvöldið er Ísland sex stigum á eftir Tyrklandi og Frakklandi en tvær efstu þjóðirnar komast beint á EM. Tyrkland og Frakkland mætast í París annað kvöld á sama tíma og Ísland og Andorra eigast við, og vinni Frakkar þann leik er ljóst að Ísland kæmist á EM með því að vinna sína leiki við Andorra, Tyrkland og Moldóvu.

„Staðan hefur ekki mikið breyst. Það var talað um fyrir þessa síðustu fjóra leiki að við þyrftum að vinna þrjá og hún er þannig enn, en nú þurfum við líka að treysta á Frakkana. Það er hægt að finna verri lið til að treysta á en franska landsliðið. Við treystum því að þeir klári sitt, en fyrst og fremst þurfum við að klára okkar leiki. Við gerum þá kröfu á okkur að vinna heimaleiki gegn liðum eins og Andorra og Moldóvu. Við þurfum að klára slíka leiki ef við ætlum að fara á EM yfirhöfuð,“ sagði Alfreð á blaðamannafundi í dag.

Alfreð og Erik Hamrén landsliðsþjálfari eru báðir með varann á gagnvart Andorra þó að krafan um sigur sé skýr:

„Þetta er allt öðruvísi verkefni [en Frakkaleikurinn] en samt mikil áskorun. Fyrst leikur gegn heimsmeisturunum en svo liði eins og Andorra. Þið sáuð úrslit þeirra gegn Tyrkjum og Frökkum, það er erfitt að opna þetta lið og við vitum það. Við verðum og eigum að vinna en verðum að vera góðir og sýna okkar gæði. Ég er viss um að við erum tilbúnir. Vonbrigðin voru mikil eftir Frakkaleikinn því leikmennirnir áttu meira skilið, en mér finnst þeir líka hungraðir í að vinna leikinn og vonast eftir góðum úrslitum í Frakklandi. Þannig verði það síðustu tveir leikirnir sem ráði því hverjir komast á EM,“ sagði Hamrén.

Íslenska landsliðið er í erfiðri stöðu eftir tapið gegn Frökkum …
Íslenska landsliðið er í erfiðri stöðu eftir tapið gegn Frökkum en enn er von um að komast á EM. mbl.is/Eggert
Erik Hamrén hefur þurft að undirbúa sína menn fyrir tvö …
Erik Hamrén hefur þurft að undirbúa sína menn fyrir tvö gjörólík verkefni síðustu dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert