Þurfum nú bara að byggja ofan á reynsluna í fyrri hálfleik

Hákon Arnar Haraldsson með boltann í kvöld.
Hákon Arnar Haraldsson með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkur fannst eins og við hefðum ekki unnið stig svo stemmningin var ekki góð í klefanum eftir leik og við hefðum alltaf átt að vinna þennan leik svo þetta var ekki nógu gott,“ sagði Hákon Arnar Haraldsson. 

„Við erum auðvitað svekktir með að gera ekki meira í fyrri hálfleik en við verðum bara að læra gera út um svona leiki og það á að vera nóg að vinna eitt-núll – ekki fá á sig svona skítamark, heldur halda leikinn út. Við markið fékk Lúxemborg meðbyr með meira sjálfstrausti og meiri orku, mark svona snemma í seinni hálfleik hjálpaði þeim mikið með það.  Færanýtingin okkar í fyrri hálfleik var ekki nógu góð, ég hefði átt að nota færin mín til að skora og það er pirrandi því mér finnst að við hefðum átt skilið að fá öll stigin úr þessum leik.“   

Hákon Arnar segir að nú þurfi að byggja ofan á reynsluna í fyrri hálfleik. „Við spiluðum ekkert illa í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik og það vantar ekkert uppá sjálfstraustið hjá okkur en við þurfum nú bara að byggja ofan á hann, sjá hvað við gerðum vel og hvað við þurfum að bæta.“

Völlurinn var eins og við er að búast á þessum tíma erfiður en Skagamaðurinn sagði það enga afsökun. „Mér fannst völlurinn fínn í fyrri hálfleik en varla hægt að spila á honum í þeim seinni svo við þurftum að fara lengri leiðina en það þurfti Lúxemborg að gera líka svo það gildir fyrir bæði lið en við áttum samt að vinna þennan leik,“ bætti Hákon Arnar við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert