FH sótti þrjú stig í Kórinn

Marciano Aziz í leiknum í dag.
Marciano Aziz í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

HK og FH áttust við í þriðju umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í dag og lauk leiknum með sigri FH 2:0 með mörkum frá Ásbirni Þórðarsyni og Birni Daníel Sverrissyni en leikið var í Kórnum í Kópavogi.

Leikurinn fór rólega af stað og voru liðin lítið að sækja að marki hvors annars. Fyrsta alvöru færi leiksins kom þó strax á annari mínútu leiksins þegar Birnir Breki Burknason fékk boltann við markið eftir sendingu frá Marciano Aziz en Sindri Kristinn Ólafsson varði skalla Birnis glæsilega í hornspyrnu.

Þegar komið var á 6 mínútu leiksins keyrði Vuk Oskar Dimitrijevic upp hægri kantinn, gaf boltann fyrir mark HK og þar fvar Björn Daníel Sverrisson á hárréttum stað en skalli hans endaði í þverslánni. Sannkallað dauðafæri.

Liðin héldu áfram að skiptast á að vera með boltann en lítið markvert gerðist í framhaldinu. Á 32 mínútu fékk Ólafur Guðmundsson gult spjald fyrir að fara með fótinn of hátt í einvígi við leikmann HK. Hárréttur dómur hjá Elíasi Inga Árnasyni dómara.

Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik og gengu liðin til leikhlés í stöðunni 0:0.

Það gerðist meira í síðari hálfleik þó hann hafi byrjað rólega. FH gerði eina skiptingu í hálfleik en Dusan Brkovic kom inn á fyrir Ásbjörn Þórðarsson.

Á 66 mínútu kom Arnór Borg Guðjohnsen inn á völlinn fyriri FH. Hann var ekki lengi að láta finna fyrir sér því á 67 mínútu stingur hann boltanum inn fyrir vörn HK þar sem Ásbjörn Þórðarsson mætti og afgreiddi boltann í netið. Staðan 1:0 fyrir FH.

HK gerði þunga atlögu að marki FH strax eftir markið en það varði ekki lengi og skilaði ekki tilætluðum árangri. Meiri hraði komst í leikinn í kjölfarið og varð hann þá meira fyrir augað.

Á 80 mínútu leiksins fékk Ísak Óli Ólafsson boltann á eigin vallarhelmingi. Hann sá tækifæri og sparkaði boltanum yfir allan völlinn þar sem fyrirliði FH, Björn Daníel Sverrisson tók við honum inni í teig HK og afgreiddi boltann snyrtilega í net gestgjafanna. Staðan 2:0 fyrir FH.

Fljótlega eftir markið fékk Atli Hrafn Andrason sitt annað gula spjald og því rautt. HK menn voru því manni færri síðustu 10 mínútur venjulegs leiktíma.

Eftir þrjá leiki er FH með 6 stig og HK með aðeins 1 stig.

Næsti leikur FH er gegn ÍA á Akranesi þann 28 apríl og á sama tíma leikur HK gegn Vestra á Ísafirði.

HK 0:2 FH opna loka
90. mín. Leik lokið FH fer með sigur af hólmi héðan úr Kórnum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka