Kæra leikinn gegn Magdeburg

Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk fyrir Kielce í Magdeburg í …
Haukur Þrastarson skoraði þrjú mörk fyrir Kielce í Magdeburg í gærkvöld. AFP/Ina Fassbender

Pólsku meistararnir Kielce hafa sent Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, formlega kæru vegna leiksins gegn Magdeburg í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar sem fram fór í Þýskalandi í gærkvöld.

Magdeburg komst þá áfram í vítakeppni eftir að hafa unnið leikinn 23:22 en Kielce vann fyrri leikinn í Póllandi, 27:26.

Pólverjarnir mótmæla atviki í síðustu sókn leiksins þar sem þeir telja að dómarar leiksins hefðu stöðvað leikinn of snemma til að dæma aukakast, í stað þess að láta hann halda áfram þar til ljóst væri að sóknin væri runnin út í sandinn.

Fjórir Íslendingar tóku þátt í leiknum, Ómar Ingi Magnússon, Janus Daði Smárason og Gísli Þorgeir Kristjánsson með Magdeburg og Haukur Þrastarson með Kielce.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert