Þeir voru erfiðir en við áttum að vinna stærra

Viktor Jónsson skoraði eitt mark fyrir ÍA í stórsigri á …
Viktor Jónsson skoraði eitt mark fyrir ÍA í stórsigri á Fylki í dag og hefur nú skorað 4 mörk í þremur leikjum. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Mér fannst Fylkismenn mjög erfiðir en mér finnst samt að sigurinn hefði getað verið töluvert stærri ef við hefðum klárað færin okkar en óneitanlega opnaðist leikurinn þegar þeir fengu rauða spjaldið,“  sagði Skagamaðurinn Viktor Jónsson sem skoraði eitt af mörkum ÍA í 5:1 sigri á Fylki er liðið mættust í Akraneshöllinni í dag þegar leikið var í 3. umferð efstu deildar karla í fótbolta.

Þrátt fyrir ákveðna Árbæinga vörðust Skagamenn mjög vel og voru síðan snöggir fram, sem skilaði því að þeir voru 1:0 yfir í hálfleik auk þess að Fylkismaðurinn Orri Sveinn Stefánsson fékk beint rautt spjald rétt fyrir leikhlé.

 „Við vissum að Fylkismenn væru mjög ákveðnir í að sækja hratt með mörgum mönnum og koma boltanum inn fyrir varnirnar en við ætluðum að vera vakandi yfir því, vera alveg í andlitinu á þeim og pressa stíft, sækja svo á bak við þá,“ bæti Viktor við, ánægður með sitt lið.  „Við fylgdum því leikplani frá byrjun og mér fannst það ganga mjög vel – að vera grimmari en þeir og ákveðnir í hvað við ætluðum að gera. Fylkismenn eru í mjög góðu standi með unga og spræka leikmenn, sem eru mjög snöggir og það er alltaf erfitt.  Það var mikið hlaupið í dag og við finnum alveg fyrir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert