1. umferð: Lengstu bið lokið - 90. markið - Fanndís áttunda

Víkingskonur fagna Sigdísi Evu Bárðardóttur eftir að hún skoraði fyrsta …
Víkingskonur fagna Sigdísi Evu Bárðardóttur eftir að hún skoraði fyrsta mark félagsins í efstu deild í 40 ár. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lengstu bið félags eftir því að leika á ný í efstu deild kvenna í knattspyrnu á ný lauk í gærkvöld þegar Víkingur lagði Stjörnuna að velli, 2:1, í fyrstu umferð Bestu deildar kvenna í Garðabæ.

Víkingur lék þar sinn fyrsta leik í 40 ár í deildinni, eða frá því liðið tapaði 5:0 fyrir Breiðabliki 15. ágúst 1984, í leik þar sem Erla Rafnsdóttir skoraði þrennu fyrir Kópavogsliðið.

Einnig var þetta fyrsti sigur Víkings í efstu deild kvenna frá 1. september árið 1983 en þá vann liðið sigur á Víði úr Garði, 2:1.

Sigdís Eva Bárðardóttir skoraði fyrsta mark Víkings í deildinni síðan Jóna Bjarnadóttir skoraði í tapi gegn ÍA, 9:1, á Akranesi 21. júní 1984.

Sjö af þeim fjórtán leikmönnum Víkings sem tóku þátt í leiknum gegn Stjörnunni spiluðu sinn fyrsta leik í efstu deild.

Fylkir var líka með marga nýliða en sex spiluðu sinn fyrsta leik í efstu deild í jafnteflinu gegn Þrótti, 1:1. Þar af voru tveir erlendir leikmenn, Abigail Boyan og Kayla Bruster.

Andrea Mist Pálsdóttir var í liði Stjörnunnar gegn Víkingi og lék sinn 150. leik í efstu deild. Hún er 66. konan sem nær þeim áfanga frá upphafi. Andrea hefur leikið 115 af þessum leikjum fyrir Þór/KA, 11 fyrir FH og nú 24 fyrir Stjörnuna.

Fanndís Friðriksdóttir í leiknum með Val gegn Þór/KA.
Fanndís Friðriksdóttir í leiknum með Val gegn Þór/KA. mbl.is/Óttar Geirsson

Fanndís Friðriksdóttir lék sinn 233. leik í deildinni með Val gegn Þór/KA og jafnaði með því Sigurlínu Jónsdóttur í áttunda sæti yfir leikjahæstu konur deildarinnar frá upphafi. Fanndís þarf sextán leiki í viðbót til að komast í sjöunda sætið.

Hafa spilað alla leiki liðsins

Bryndís Rut Haraldsdóttir og Hugrún Pálsdóttir voru í liði Tindastóls sem tapaði 1:0 á heimavelli fyrir FH í gær. Þær eru fyrstar í sögu Tindastóls til að spila 40 leiki fyrir félagið í efstu deild en þær hafa leikið alla 40 leiki Skagfirðinganna í deildinni.

Fjórar leikjahæstu konur Þróttar í deildinni frá upphafi voru allar í liðinu gegn Fylki. Methafinn Sóley María Steinarsdóttir lék sinn 72. leik fyrir félagið í deildinni, Álfhildur Rósa Kjartansdóttir sinn 70. leik, Jelena Tinna Kujundzic sinn 68. og Ísabella Anna Húbertsdóttir sinn 61. leik.

Sandra María Jessen er komin með 90 mörk í deildinni.
Sandra María Jessen er komin með 90 mörk í deildinni. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Sandra María Jessen skoraði sitt 90. mark í efstu deild þegar Þór/KA tapaði fyrir Val, 3:1, í fyrstu umferð deildarinnar á sunnudaginn. Hún er nítjánda konan frá upphafi sem nær þeim markafjölda í deildinni en Sandra hefur skorað öll mörkin fyrir Þór/KA og bætti félagsmetið. Hún hefur skorað sextán mörkum meira en sú næstmarkahæsta hjá Akureyrarliðinu, Rakel Hönnudóttir, sem skoraði 74 mörk.

Úrslitin í 1. umferð:
Valur - Þór/KA 3:1
Tindastóll - FH 0:1
Stjarnan - Víkingur R. 1:2
Breiðablik - Keflavík 3:0
Fylkir - Þróttur R. 1:1

Markahæstar:
2 Amanda Andradóttir, Val
2 Vigdís Lilja Kristjánsdóttir, Breiðabliki

Næstu leikir:
27.4. Keflavík - Stjarnan
27.4. Þróttur R. - Valur
27.4. Tindastóll - Breiðablik
27.4. FH - Þór/KA
27.4. Víkingur R. - Fylkir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka