Frá Stjörnunni til Fylkis

Sigurbergur Áki Jörundsson er genginn til liðs við Fylki.
Sigurbergur Áki Jörundsson er genginn til liðs við Fylki. Ljósmynd/Fylkir

Knattspyrnudeild Fylkis hefur samið við Sigurberg Áka Jörundsson um að leika með karlaliðinu næstu þrjú ár, til loka tímabilsins 2027.

Hinn tvítugi Sigurbergur Áki kemur frá uppeldisfélagi sínu Stjörnunni þar sem hann lék átta leiki í Bestu deildinni á síðasta tímabili.

Einnig lék Sigurbergur Áki sjö leiki fyrir HK í Bestu deildinni sem lánsmaður síðasta sumar.

Sumarið 2022 lék hann á láni hjá Gróttu í 1. deild og skoraði eitt mark í 18 leikjum.

Sigurbergur Áki er varnar- og miðjumaður sem á að baki 16 leiki fyrir yngri landslið Íslands og lék meðal annars alla leiki U19-ára liðsins á EM 2023 á Möltu síðastliðið sumar.

„Við bjóðum Sigurberg hjartanlega velkominn til Fylkis og hlökkum til að sjá hann spreyta sig í appelsínugulu treyjunni!

Einnig þökkum við Stjörnunni fyrir fagmannleg vinnubrögð í kringum félagsskiptin,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnudeild Fylkis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert