Eigum að geta varist þessu betur

Ólafur Kristjánsson situr á bekknum og fylgist með Maríu Evu …
Ólafur Kristjánsson situr á bekknum og fylgist með Maríu Evu Eyjólfsdóttur í leiknum í dag. mbl.is/Óttar

„Það er aldrei skemmtilegt að tapa,“ sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Þróttar, eftir 1:2 tap Þróttar gegn Val í 2. umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu á Þróttarvellinum í Laugardal í dag.

„Mér fannst við vera á afturfótunum í byrjun leiksins, „passívar“, spiluðum ekki nægilega mikið fram á við og urðum svolítið flatar í bæði varnarleik og komumst ekki út þegar fórum að spila fram á við,“ sagði Ólafur í viðtali við mbl.is eftir leik.

„Það sem mér fannst einkenna seinni hálfleikinn er að Valur stjórnaði þessu ágætlega en okkur vantaði á síðasta þriðjungi betri ákvarðanir og að vera með meiri hreyfingu og spila meira fram á við.“    

Þróttur spilaði með vörnina framarlega og náði Valur að nýta sér það oft í leiknum.

„Þetta er gott lið sem við spiluðum við, sem nýtti sér þetta bærilega en við eigum að geta varist þessu betur og við þurfum bara að laga og þétta í þau göt en mér finnst það áhættunnar virði," sagði Ólafur.

„Hún verður klár fyrir næsta leik.“ sagði Ólafur eftir spurningu um stöðuna á Álfhildi Kjartansdóttur, fyrirliða Þróttar, sem fór meidd af velli í síðasta leik og missti af leiknum í dag. 

Þróttur gerir sér ferð norður í næsta leik og mætir Þór/KA á Akureyri.

„Mér líst mjög vel á það, það er alveg stórkostlegt að fara og heimsækja Norðurland,“ sagði Ólafur í viðtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert