Þarf að læra reglurnar og þessa íþrótt upp á nýtt

Skagamenn fagna marki sínu í dag.
Skagamenn fagna marki sínu í dag. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

„Þetta var svolítið jafnt og þetta gat dottið báðum megin,“ sagði Rúnar Már Sigurjónsson leikmaður ÍA í samtali við mbl.is eftir 1:2-tap liðsins gegn FH í Bestu deildinni í fótbolta í dag.

„Við viljum vinna alla leiki á heimavelli en það gekk ekki í dag. Þetta var ekki nógu gott hjá okkur,“ bætti hann við.

Rúnar sá eitthvað jákvætt í spilamennsku Skagamanna, en þeir geta þó spilað betur. „Þetta var þokkalegt á köflum. Stundum áttum við fína spretti og stundum þurftum við að verjast. Heilt yfir erum við ekki ánægðir með þetta. Við getum betur og eigum inni.“

Fimmtán gul spjöld fóru á loft í leiknum, þrátt fyrir að hann hafi ekki verið sérlega grófur.

Rúnar Már Sigurjónsson er reyndur atvinnumaður.
Rúnar Már Sigurjónsson er reyndur atvinnumaður. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Það eru nýjar áherslur hjá dómurum og maður þarf að læra reglurnar og þessa íþrótt upp á nýtt miðað við línuna sem lögð er. Hún var skrítin. Ég sá ekki margar fólskulegar tæklingar og þetta er skrítin lína.“

Oliver Stefánsson fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í lokin fyrir að blanda sér í rifrildi tveggja leikmanna.

„Fyrir mér var þetta ekki mikið en kannski býður hann upp á þetta. Hann á að láta þetta vera þegar hann er á gulu. Hann lærir af þessu. Við megum ekki við að missa menn í bönn eða meiðsli. Hann hefði alveg getað sleppt því að spjalda á þetta í lokin,“ útskýrði Rúnar.

Hann lék sinn fyrsta leik í deildinni frá árinu 2013 í dag, en Rúnar átti farsælan feril í atvinnumennsku áður en leiðin lá heim í ár. Hann er að jafna sig á meiðslum og lék því aðeins á lokakaflanum í dag.

„Ég er að koma mér af stað og ÍA er búið að gera mjög vel í að hjálpa mér í því. Ég er ánægður að byrja aftur á fullu. Formið er mjög gott en þetta snýst um að passa sig aðeins eftir aðgerðina. Ég get spilað meira ef við horfum á líkamlegt ástand en þetta snýst um að fá nárann í gang og treysta honum,“ sagði Rúnar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert