„Pínu leiðinlegt að hafa ekki haldið hreinu í dag“

Caroline Murray í strangri gæslu Agnesar Birtu
Caroline Murray í strangri gæslu Agnesar Birtu Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Agnes Birta Stefánsdóttir er annar miðvörðurinn í þéttu liði Þórs/KA í Bestu-deildinni í fótbolta. Var hún í eldlínunni með liði sínu í kvöld þegar Þróttur úr Reykjavík kom í heimsókn í Bogann á Akureyri. Þór/KA vann leikinn 2:1 og skoraði Sandra María Jessen bæði mörk norðankvenna.

Agnes Birta stóð fyrir sínu í hjarta varnarinnar. Yfirvegun hennar, styrkur og góðar staðsetningar héldu Þrótturum í núllinu fram á lokasekúndur leiksins. Hún hafði þetta að segja í viðtali eftir leik.

„Þetta var erfiður leikur í dag. Mér fannst við mæta frekar stressaðar til leiks og við vorum undir langt fram í fyrri hálfleikinn. Við gáfum þó fá færi á okkur og komumst hægt og rólega inn í leikinn. Þegar við náðum að skora þá vorum við með yfirhöndina og svo eftir seinna markið okkar þá var þetta í okkar höndum. Þróttur gerði reyndar harða atlögu að okkur á lokakaflanum og það var dugnaður í þeim. Við stóðumst pressuna hjá þeim og þurftum sko að vera vel á tánum í varnarleiknum. Þetta var ekkert einfalt, en samt pínu leiðinlegt að hafa ekki haldið hreinu í dag.“

Sandra María Jessen og Jelena Tinna Kujundzic í leik kvöldsins
Sandra María Jessen og Jelena Tinna Kujundzic í leik kvöldsins Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Agnes Birta gerði mikið af því að bera lof á andstæðingana en sagði svo „munurinn lá í því að við kláruðum okkar færi.“

Lið Þórs/KA hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir tap í fyrsta leik gegn Val á Hlíðarenda. Liðið virðist koma sterkara til leiks en undanfarin ár. „Mér finnst við vera á allt öðrum stað en á sama tíma í fyrra. Liðið er betur mótað og samæfðara. Mér finnst við vera komin mörgum skrefum lengra en í fyrra. Það er betra spil og meira sjálfstraust hjá leikmönnum. Ég hef fulla trú á okkur á þessu tímabili.“

Agnes Birta hefur aðallega spilað sem miðjumaður en í fyrra var hún bara sett við hlið mágkonu sinnar í aðra miðvarðarstöðuna. Síðan þá hafa þær Hulda Björg Hannesdóttir náð vel saman í hjarta varnarinnar.

„Þetta hefur smellpassað fyrir okkur. Mér fannst erfitt að spila þarna fyrst en svo bara þjálfast þetta eins og annað. Nú er maður bara aðeins aftar og hefur kannski betri yfirsýn“ sagði Agnes Birta að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert