Ólýsanlegt að fylgjast með stráknum

Elís Þór Sigurðsson.
Elís Þór Sigurðsson. mbl.is/Brynjólfur Löve

„Ég er stressaður því þetta getur svo sannarlega farið á báða vegu,“ sagði Elís Þór Sigurðsson, faðir landsliðsmannsins Bjarka Más Elíssonar, í samtali við mbl.is á Hofbrähaus í München í Þýskalandi í dag.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta mætir Ungverjalandi í lokaleik sínum í C-riðli Evrópumótsins í Ólympíuhöllinni í München klukkan 19:30 en með sigri fer Ísland með tvö stig inn í milliriðlakeppnina.

„Á sama tíma hef ég mikla trú á íslenska liðinu en ég get svo sem alveg viðurkennt það líka að ég finn fyrir frekar miklu stressi en það er nú nánast alltaf þannig þegar landsliðið spilar handbolta þannig að þetta er ekkert nýtt fyrir mér,“ sagði Elís Þór.

Langt yfir alla gæsahúð

Bjarki Már fagnar alltaf vel og innilega í hvert skipti sem hann skorar og fær alla stúkuna með sér í leiðinni.

„Það er ólýsanlegt að fylgjast með stráknum úr stúkunni sjá hann skora og fagna með alla stúkuna á bakvið sig. Þetta nær langt yfir alla gæsahúð og það eru í raun ekki til nein orð til þess að lýsa þessu.“

En hvernig spáir hann leiknum á eftir?

„Ég held að við séum að fara vinna þennan leik 29:28,“ bætti Elís við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka