Rétt að hann hefur átt skítatímabil

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP/Justin Tallis

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, kveðst sammála brasilíska sóknarmanninum Richarlison um að tímabilið hafi verið lélegt hjá honum.

Richarlison kvaðst í samtali við ESPN eftir leik gegn AC Milan í 16-liða úrslitum Meistaradeild Evrópu ósáttur við mínútufjölda sinn á tímabilinu.

„Ég skil ekki af hverju ég byrjaði leik­inn á bekkn­um ef ég á að vera al­veg hrein­skil­inn. Þetta er búið að vera al­gjört skíta­tíma­bil ef svo má segja, af­sakið orðbragðið.

Gengið hef­ur verið upp og niður og ég hef ekki spilað jafn mikið og ég hefði viljað,“ sagði Richarlison meðal annars.

Á blaðamannafundi í dag var Conte spurður út í þessi ummæli.

„Ég horfði á viðtalið við Richarlison. Hann gagnrýndi mig ekki. Hann sagði: „Tímabilið mitt er búið að vera skítatímabil.“ Og það er rétt hjá honum.

Tímabilið hefur ekki verið gott hjá honum því hann hefur glímt við fjölda meiðsla. Hann hefur skorað núll mörk fyrir okkur.

Ég tel hann mjög hreinskilinn að segja tímabilið ekki hafa verið gott hjá sér. Ef hann verðskuldar að spila mun ég veita honum tækifæri til þess,“ sagði ítalski stjórinn.

Richarlison hefur, líkt og Conte bendir á, ekki enn skorað í ensku úrvalsdeildinni fyrir Tottenham á tímabilinu eftir að hann var keyptur á 60 milljónir punda frá Everton síðastliðið sumar.

Hann skoraði hins vegar tvö mörk í sex leikjum í Meistaradeildinni, en Tottenham féll úr leik gegn AC Milan með því að tapa samanlagt 0:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert