Mæddur yfir liðsfyrirmælum

Grín á góðri stundu. Toto Wolff í bílskúr Mercedes.
Grín á góðri stundu. Toto Wolff í bílskúr Mercedes. AFP

Mercedesstjórinn Toto Wolff hefur viðurkennt, að hann hefði verið miður sín eftir að hafa beitt liðsfyrirmælum í rússneska kappakstrinum til að gefa Lewis Hamilton sigurinn á kostnað Valtteri Bottas.

„Ég er harmþrunginn,“ sagði Wolf í yfirliti sínu um vertíðina undir árslok. Með því að skipa Bottas að víkja og hleypa Hamilton fram úr náði sá síðarnefndi 50 stiga forskoti á næsta keppinaut sinn, Sebastian Vettel hjá Ferrari, í keppninni um heimsmeistaratitil ökumann.

Fyrirmælin höfðu gríðarlegar afleiðingar fyrir Bottas því með sigri í Rússlandi hefði hann hlotið 25 stig og orðið í þriðja sæti í titilslagnum. Varð hann þó á endanum í aðeins fimmta sæti, tveimur stigum á eftir Max Verstappen á Red Bull og fjórum á eftir Kimi Räikkönen hjá Ferrari. Stigin sjö sem hann var sviptur með því að vera skipað að víkja fyrir Hamilton hefðu lyft honum upp fyrir Verstappen og Räikkönen.

Bottas hóf keppni af ráspól í Sotsjí og hafði forystu langleiðina í mark. „Viðurðum að beita þessum hræðilegu liðsfyrirmælum. Kappaksturinn var Valtteris en til að afla Lewis fleiri stiga létum við þá skipta á fyrsta sætinu. Þetta er eitthvað sem enginn vill gera, það skein engin gleði úr andlitum okkar. Liðsfyrirmæli eru eitthvað sem gengur gegn öllum okkar gildum sem kappakstursmenn og spakmælunum „megi sá besti sigra“.     

Á þessari stundu vorum við í afar harðri keppni við Ferrari og það var útilokað að gera þetta öðruvísi. Þegar Valtteri vék varð ég harmþrunginn og fann til með honum. Sjálfum leið  mér hræðilega illa yfir ákvörðuninni. En þessi íþrótt getur verið harðneskjuleg á stundum, eins og á þessu augnabliki.“

Valtteri Bottas á tali við liðsstjórann Toto Wolff.
Valtteri Bottas á tali við liðsstjórann Toto Wolff. AFP



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert