Við verðum að vera þolinmóðir

Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. AFP

Knattspyrnustjóri Evrópumeistara Real Madrid, Zinedine Zidane, segir að hann muni ekki flýta sér um of að tefla Cristiano Ronaldo fram eftir meiðsli.

Ronaldo varð sem kunnugt er fyrir meiðslum í úrslitaleik Evrópumótsins í byrjun júlí þegar Portúgal varð Evrópumeistari. Síðan þá hefur hann verið í sumarleyfi.

Zidane hefur gefið það út að Ronaldo muni ekki taka þátt í Super Cup þegar Real leikur gegn Sevilla 9. ágúst. Einnig er óvíst hvort Ronaldo muni leika í 1. umferð spænsku deildarinnar 21. ágúst.

„Eins og staðan er í dag þá glímir hann enn við meiðsli,“ sagði Zidane en Real Madrid er í æfingaferð í Bandaríkjunum.

„Auðvitað vill hann koma aftur en við verðum að vera þolinmóðir og hann þarf að vera rólegur. Hann verður fljótlega með okkur í Madrid,“ bætti Zidane við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert