Hneig niður eftir að lungað féll saman

Evan Ndicka.
Evan Ndicka. AFP/Charly Triballeau

Ítarlegar rannsóknir á knattspyrnumanninum Evan Ndicka, varnarmanni Roma, hafa leitt í ljós að annað lunga hans féll saman í leik gegn Udinese um síðustu helgi.

Ndicka hné niður í síðari hálfleik í leiknum og hlaut aðhlynningu þegar í stað. Hann var með meðvitund þegar hann var borinn af velli og fluttur tafarlaust á sjúkrahús í Udine.

Þaðan var hann útskrifaður á mánudag eftir að rannsóknir sýndu ekki fram á nein hjartavandamál eins og óttast var. Gekkst Ndicka undir frekari rannsóknir á sjúkrahúsi í Róm þar sem niðurstaðan var samfallið lunga.

„Samfallið lunga er sársaukafullt en sem betur fer, ef við getum orðað það þannig, þjáist hann ekki af því sem við óttuðumst,“ sagði Daniele de Rossi, knattspyrnustjóri Roma, á fréttamannafundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert