19 ára dvöl senn á enda

Iker Muniain hefur spænska konungsbikarinn á loft í byrjun mánaðarins.
Iker Muniain hefur spænska konungsbikarinn á loft í byrjun mánaðarins. AFP/Javier Soriano

Spænski knattspyrnumaðurinn Iker Muniain yfirgefur herbúðir Athletic Bilbao í sumar þegar samningur hans við félagið rennur út. Þá lýkur 19 ára dvöl hans hjá Bilbao.

Þetta tilkynnti Muniain sjálfur á samfélagsmiðlum félagsins í dag.

Kantmaðurinn gekk til liðs við Bilbao árið 2005, þá tólf ára gamall, og lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið fjórum árum síðar, aðeins 16 ára.

Hann hefur leikið með liðinu í spænsku 1. deildinni allar götur síðan og varð bikarmeistari í fyrsta sinn fyrr á árinu sem fyrirliði.

Alls eru leikirnir orðnir 557 í öllum keppnum og mörkin 75. Er Muniain næst leikjahæsti leikmaður í sögu Bilbao.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert