Best að ég myndi ekki snerta boltann

Margrét Einarsdóttir ver eitt 19 skota sinna í kvöld.
Margrét Einarsdóttir ver eitt 19 skota sinna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar eru einum sigri frá úrslitaeinvígi gegn annað hvort Val eða ÍBV í Íslandsmóti kvenna í handbolta eftir sigur á Fram í kvöld.

Sigrinum er ekki síst að þakka Margréti Einarsdóttur markverði Hauka sem átti sannkallaðan stórleik í kvöld og varði 19 skot, mörg á gríðarlega mikilvægum tímapunktum í leiknum ásamt því að nokkur þeirra voru sannkölluð dauðafæri.

Það er því ekki orðum ofaukið að lýsa henni sem hetju Hauka í kvöld. Við ræddum við Margréti eftir leikinn.

Undirbjóstu þig sérstaklega fyrir leikinn í kvöld?

„Nei ég hélt bara í sömu rútínu eins og fyrir alla leiki. Stundum virkar það mjög vel líkt og í dag og stundum ekki. Það hjálpar alltaf mjög vel þegar vörnin er sterk því vörnin á alltaf hluta af markvörslunni."

Haukar eru marki undir í lokin og Fram í sókn. Hvað fer í gegnum hugann á markverðinum á þessum tímapunkti?

„Ég hugsaði að ef við ætluðum að vinna þennan leik þá væri best að ég myndi ekki snerta boltann í þessari vörn og vonaði að við myndum fiska boltann í vörninni og við gerðum það og skoruðum."

Nú eru Haukar 2:0 yfir og markmiðið er að vinna næsta leik ekki satt?

„Jú að sjálfsögðu en það verður gríðarlega erfitt að klára þetta 3:0 en það er auðvitað markmiðið en við gerum okkar besta til að gera það. Þetta er á engan hátt komið og Fram er ennþá í séns að komast inn í þetta."

Er eitthvað sérstakt sem þú þarft að vinna í fyrir næsta leik?

„Ég var í veseni með skotin fyrir utan í kvöld. Ég set líklega fókus á að vinna í þeim fyrir næsta leik," sagði Margrét í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert