Þjálfarinn nauðgaði honum 100 sinnum

Þáttastjórnandinn Victoria Derbyshire ræddi við fjóra fyrrverandi fótboltamenn um kynferðisofbeldi …
Þáttastjórnandinn Victoria Derbyshire ræddi við fjóra fyrrverandi fótboltamenn um kynferðisofbeldi sem þeir urðu fyrir. (F.v.) Jason Dunford, Steve Walters, Chris Unsworth og Andy Woodward. Skjáskot/BBC

Fyrrverandi leikmaður unglingaliðs enska úrvalsdeildarliðsins Manchester City segir að hylmt hafi verið yfir með barnaníðshring í fótboltaheiminum. Nokkrir fyrrverandi fótboltamenn hafa nú stigið fram og sagt frá kynferðislegu ofbeldi sem þeir urðu fyrir frá þjálfurum sínum á barnsaldri.

Fyrirliði enska landsliðsins, Wayne Rooney, hrósar þeim fórnarlömbum sem þorað hafa að stíga fram og segja sögur sínar.

Leikmaðurinn fyrrverandi Jason Dunford bættist í dag í hóp þeirra fótboltamanna sem sagt hafa opinberlega frá ofbeldinu. Flestar ásakanirnar snúa að Barry Bennell, sem þjálfaði unga leikmenn Manchester City, Stoke, Crewe Alexandra og fleiri félaga á norðvestanverðu Englandi.

Andy Woodward var sá fyrsti sem steig fram. Hann sagði að þegar hann var barn hefði Bennell beitt hann grófu ofbeldi. Hann grét í dag er tveir fótboltamenn til viðbótar, Chris Unsworth og Dunford, komu fram opinberlega og sögðu frá sinni reynslu. Unsworth segist aldrei hafa sagt nokkrum manni frá ofbeldinu fyrr en nú. Bennell nauðgaði honum allt að hundrað sinnum.

Margdæmdur fyrir brot sín

Bennell er 64 ára í dag. Hann fékk fjögurra ára dóm fyrir að nauðga breskum dreng á fótboltaferðalagi í Flórída árið 1994. Þá fékk hann einnig níu ára dóm fyrir 23 brot gegn sex drengjum á Englandi árið 1998.

Honum var svo stungið í fangelsi í þriðja sinn í fyrra er hann játaði að hafa beitt dreng ofbeldi í fótboltabúðum árið 1980.

„Ég held að þetta hafi verið samsæri og barnaníðshringur,“ segir Dunford í samtali við BBC.

Dunford segir að Bennell hafi meðal annars reynt að snerta hann er hann lá uppi í rúmi í ferð sem hann fékk í verðlaun fyrir að vinna mót. „Það var fólk í þessum fótboltafélögum sem hafði það hlutverk að fylgjast með drengjunum,“ segir Dunford. „Ég held að Jimmy Savile sé eins og kórdrengur við hliðina á þessum náunga.“

Savile lést árið 2011 og í kjölfarið komu upp á yfirborðið hræðileg ofbeldisverk gegn börnum sem hann hafði framið áratugum saman, að því er virðist nánast óáreittur. Savile var þekktur sjónvarps- og útvarpsmaður.

Í kjölfar þess umfangsmikla máls fór af stað sérstök rannsókn á kynferðisofbeldi gegn börnum í Bretlandi. Voru m.a. rannsakaðar ásakanir gegn fleiri þekktum einstaklingum. Enginn þeirra tengdist þó fótboltaheiminum.

Wayne Rooney hrósar þeim sem stigið hafa fram og sagt …
Wayne Rooney hrósar þeim sem stigið hafa fram og sagt frá erfiðri reynslu sinni. Hann hvetur fleiri til að gera slíkt hið sama. AFP

Neituðu að tjá sig um Bennell

Teymi sjónvarpsmanna sem vann að heimildarmynd um Bennell árið 1997 reyndi að fá viðtöl við breska knattspyrnusambandið en því var hafnað.

 „Það er hneyksli,“ segir Greg Clarke, núverandi formaður sambandsins. Hann hefur skrifað bréf til þrjátíu þúsund fótboltafélaga á Bretlandseyjum til að vekja athygli á málinu. „Þetta eru hroðalegir glæpir og það þarf að rannsaka þá af lögreglunni. Hún mun fá allan okkar stuðning við það.“

Allt frá því að Woodward steig fram hafa nokkrir fyrrverandi fótboltamenn til viðbótar sagst hafa verið beittir ofbeldi er þeir voru börn af hálfu þjálfara sinna. Margir þeirra segja að Bennell hafi verið ofbeldismaðurinn. Sérstök neyðarlína hefur verið sett upp vegna málsins og á fyrstu tveimur klukkustundunum hringdu yfir fimmtíu þangað.

Ekki þjást í þögninni

Rooney er meðal þeirra sem hvatt hafa þá sem orðið hafa fyrir ofbeldi að hafa samband við hjálparlínuna. Hann segir þá ekki eiga að þjást í þögninni.

„Það er hræðilegt að einhverjir félaga minna hafi þjáðst á meðan þeir spiluðu þessa íþrótt sem ég og þeir elskum,“ sagði Rooney. „Andy Woodward er einstaklega hugrakkur að hafa stigið fram og ég vil hvetja fleiri til að gera það. Það er mikilvægt að fólk viti að það sé í lagi að stíga fram, að það sé hægt að fá hjálp og að það þurfi ekki að þjást í þögninni.“

David White, fyrrverandi leikmaður Manchester City, var fjórði leikmaðurinn sem sagði sögu sína. Eins og Woodward og Steve Walters varð hann fyrir ofbeldi af hálfu Bennells. 

Paul Stewart, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur og Liverpool, varð ítrekað fyrir ofbeldi af hálfu manns sem hann hefur ekki nafngreint. Hann segir að maðurinn hafi hótað að drepa fjölskyldu hans segði hann frá. 

Dagblaðið The Guardian segir að fyrrverandi leikmaður Newcastle United, sem ekki vildi láta nafns síns getið, hefði orðið fyrir ofbeldi sem barn er hann lék með yngri flokkum klúbbsins. 

Sky-fréttastofan segist hafa upplýsingar um að ellefu manns hafi látið lögreglunni í Cheshire á Norðvestur-Englandi í té upplýsingar um ofbeldi í fótboltaheiminum. Enginn hefur enn verið handtekinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert