Guðmundur og Sesselja best í Mosfellsbæ

Sesselja Líf Valgeirsdóttir og Guðmundur Árni Ólafsson.
Sesselja Líf Valgeirsdóttir og Guðmundur Árni Ólafsson. Ljósmynd/Afturelding

Handknattleiksmaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson og knattspyrnukonan Sesselja Líf Valgeirsdóttir voru í dag valin íþróttakarl og íþróttakona Aftureldingar.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Aftureldingar um íþróttafólk ársins.

Guðmundur Árni:

Guðmundur Árni lék mjög vel á seinni hluta síðasta tímabils, var hann markahæsti leikmaður Aftureldingar og endaði hann sem næst markahæsti leikmaður Olís deildarinnar. Hann var lykilmaður liðsins sem endaði í 3. sæti Olísdeildarinnar. Hann hefur einnig leikið mjög vel á þessu tímabili og er liðið núna á toppnum í Olísdeild karla.

Hann komst í 35 manna landsliðhóp fyrir HM í Egyptalandi sem hefst núna í janúar.

Guðmundur Árni er mikill leiðtogi innan- sem utanvallar. Hann æfir vel, leggur mikið á sig og er frábær fyrirmynd fyrir okkar ungu og efnilegu leikmenn.

Sesselja Líf:

Sesselía Líf Valgeirsdóttir er knattspyrnukona Aftureldingar. Sesselía er uppalinn í Mosfellsbænum og lék með yngri flokkum félagsins áður en hún spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir Aftureldingu árið 2010, aðeins 16 ára gömul. Sesselía á að baki um 70 leiki í meistaraflokki fyrir Aftureldingu en á ferlinum á hún að baki yfir 160 leiki með Aftureldingu, Þrótti og ÍBV.

Sesselía kom aftur heim fyrir síðasta tímabil frá Vestmannaeyjum og var fyrirliði liðsins í Lengjudeildinni í sumar og var ein af mikilvægustu leikmönnum liðsins, en liðið endaði í 4.sæti Lengjudeildar með 28 stig.

Sesselía er mikil keppnismanneskja sem leggur sig fram í öllum verkefnum fyrir félagið sitt, hvort sem það er æfing eða leikur. Hún er mikill leiðtogi á velli og frábær liðsfélagi. Hún er einnig góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur og verður gaman að fylgjast með henni á vellinum næsta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka