Af hverju eru stærstu liðin að gefa út rafmyntir?

Mynt enska stórliðsins Manchester City hefur velt hvað mestu að …
Mynt enska stórliðsins Manchester City hefur velt hvað mestu að undanförnu. Engin mynt hefur þó velt meiru en mynt ítalska liðsins Lazio. AFP

Stærstu knattspyrnulið heims eru farin að gefa út rafmyntir sem aðdáendur félaganna geta keypt til þess að nota við kaup á ýmsum varningi sem félagið selur.

Rafmyntirnar eru kallaðar „fan-tokens“ upp á ensku og þær hafa vakið mikla athygli. Ekkert íslenskt orð finnst yfir myntirnar, en orðskrípið „tókenar“ varð til í samtali blaðamanns og Björns Bergs Gunnarssonar, deildarstjóra greiningar hjá Íslandsbanka, sem er sérfróður um þessi mál.

Alls hafa um 24 félagslið í fimm stærstu deildum Evrópuboltans tekið upp rafmyntir, þar á meðal átta lið í efstu deild á Englandi.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka.
Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar hjá Íslandsbanka. Ljósmynd/Íslandsbanki

Eins og Disney-dollararnir forðum

Hvað eru þessir „tókenar“ og hvað er hægt að kaupa fyrir þá?

„Ég hugsa að við getum orðað það sem svo að þarna mætist tveir heimar. Í gegnum tíðina hefur stuðningsmönnum verið boðið að greiða fyrir sérstaka aðild að félögum, meðal annars með formlegum hætti þar sem Barcelona er frægt dæmi og slíku hefur jafnvel fylgt atkvæði á aðalfundi. Tilfallandi fjáröflunarverkefni hafa svo gengið misvel, svo sem sala á því að nafn viðkomandi sé ritað á tiltekinn vegg eða lítil fyrirtæki fái að tilnefnda mann leiksins,“ segir Björn og bætir við:

„En nýlega hafa félögin þó tekið eftir því hvernig þriðji aðili hefur verið að hagnast á stuðningsmönnum þeirra. Mig minnir að um 200 milljörðum króna sé varið í ýmis viðbótarkaup í tölvuleiknum FIFA á hverju ári svo dæmi sé tekið og sá tími sem varið er í arðbæra „fantasy-leiki“ sýnir að fólk til ekki bara tilbúið í að spá í fótbolta utan þeirra 90 mínútna sem leikið er heldur eyða gríðarlegum fjárhæðum í hina ýmsu afþreyingu.

Þessir „tókenar“ eru leið til að sameina þetta tvennt. Þeir eru í raun inneignir til notkunar innan lokaðs heims viðkomandi félags, ekki ósvipað gömlu Disney dollurunum sem eingöngu var hægt að nota í skemmtigörðum Disney. Þú kaupir þá fyrir raunverulega peninga og notar svo í hverja þá afþreyingu sem klúbbnum dettur í hug, svo sem að hafa áhrif á minniháttar ákvarðanir félagsins eða til að kaupa aðgang að enn frekari afþreyingu.”

Rafmynt spænska risans frá Katalóníu hefur verið vinsæl.
Rafmynt spænska risans frá Katalóníu hefur verið vinsæl. AFP

Gengur illa að græða á þessu eins og öðrum rafmyntum

Björn segir að ekki sé hægt að horfa á rafmyntir fótboltaklúbbanna eins og venjulega gjaldmiðla, þrátt fyrir að margir stuðningsmenn hafa reynt að kaupa og selja „tókena“ til þess að græða smá aur hér og smá aur þar. Virði „tókenanna“ hefur þó nær bara fallið í flestum tilfellum þannig það má margt gera betra við tímann sinn en að liggja yfir þessum myntum í gróðaskyni.

„Þeir hegða sér svo sannarlega ekki eins og venjulegir gjaldmiðlar. Við getum alveg kallað þetta rafmyntir og þær hegða sér að hluta til svipað öðrum slíkum þar sem þeir geta gengið kaupum og sölum. Verðið ætti sennilega að fara eftir því hvernig fólk er að verðmeta það sem í boði er fyrir hvern pening en mér sýnist verðsveiflurnar þó gefa annað til kynna,“ segir Björn.

Hvaða upphæðir erum við að sjá í þessu – eru klúbbarnir að græða stórfé? 

„Þetta er orðið lygilega stórt. Stuðningsmenn hafa þegar keypt slíkar myntir fyrir tugi milljarða króna og það virðist enn vera heilmikill vöxtur í þessu. Þetta gæti orðið þokkalegasti tekjustofn fyrir félög. Ég heimsótti eitt sinn fornfrægt félagslið í Skotlandi sem á sínum tíma seldi stuðningsmönnum eina flís í göngunum út á völl. Það þurfti hvort sem er að flísaleggja og var lítið mál að bæta nöfnum stuðningsmanna við, en margir tóku þátt og reyndist þetta hin besta fjáröflunarleið. Stafrænar leiðir á borð við þessar hafa þann sérstaka kost að þeim fylgir sáralítill kostnaður og því er áhættan við að slá til og reyna sáralítil.“

Er þetta ekkert hættulegt fyrir grunlausa neytendur og aðdáendur liðanna sem standa í þessu? 

„Jú, því miður hefur maður það á tilfinningunni að margir geti farið fram úr sér og peningar verði helst sóttir til fólks með tiltölulega litla verðvitund. En eins og reynslan af sölu viðbótarkaupa í tölvuleikjum sýnir okkur þarf hver að bera ábyrgð á sjálfum sér og illa hægt að stöðva svona eðlilegan fylgifisk tækiframfara.“

Átta lið í ensku úrvalsdeildinni gefa út rafmyntir fyrir aðdáendur …
Átta lið í ensku úrvalsdeildinni gefa út rafmyntir fyrir aðdáendur sína. Þar á meðal er Brighton, sem er ekki beint stórlið í sama skilningi og PSG eða Juventus, sem einnig gefa út slíkar myntir. AFP

Tekur þátt í jólabókaflóðinu

Björn hefur skapað sér nafn sem sérfræðingur í hagfræði fótboltans og hann freistar þess að svala forvitni landans um þau mál með nýrri bók sinni, sem er á fljúgandi siglingu í yfirstandandi jólabókaflóði. Spurður að því hvort hann sé ekki að gefa út bók þess jólin segir Björn einfaldlega:

„Jú heldur betur!“

„Ég skrifaði létta og fróðlega bók sem heitir Peningar. Þar tala ég meðal annars um fjármálahlið fótboltans, svo sem hvert alþjóðlegur fótbolti stefnir, hvers vegnar Ronaldo er launahæstur allra og þar fram eftir götunum. En ég skyggnist líka bak við tjöldin í tónlistarheiminum með hjálp Arons Can, við förum í gegnum ferlið við framleiðslu Hollywood kvikmyndar og lítum á tískuheiminn, leikjatölvur og margt fleira sem mér þykir virkilega áhugavert og treysti að lesendanum þyki líka. Það leynis nefnilega svo margt skemmtilegt og fyndið á fjármálahliðinni. Það hefur verið frábært að sjá viðtökurnar, bókin er nú uppseld hjá útgefanda en það er ennþá hægt að nálgast hana í einhverjum búðum.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert