Fann sig strax í stálinu

Kristín einbeitt á svip í hnébeygjunni með stangarmenn á alla …
Kristín einbeitt á svip í hnébeygjunni með stangarmenn á alla kanta sem grípa inn í ef hlutirnir ætla ekki upp. Hér fóru 220 kg þó upp vandræðalaust og nýtt Evrópumet þar með í höfn. Ljósmynd/EPF/Kraftlyftingasamband Evrópu

„Já, ég er dýralæknir, það passar,“ svarar Kristín Þórhallsdóttir, 37 ára gamall Borgfirðingur sem í dag varð tvöfaldur Evrópumethafi í -84 kg flokki í klassískum kraftlyftingum í Västerås í Svíþjóð á Evrópumeistaramótinu í greininni, sem þar hefur staðið yfir nú um helgina með fimm fulltrúa Íslands meðal keppenda, Evrópumeistari í öllum þremur greinum kraftlyftinga auk samanlagðs árangurs og setti aukinheldur Íslandsmet í öllum þremur.

Svarar Evrópumeistarinn nýbakaði hér að framan fyrirspurn blaðamanns sem sneri að heitinu á Instagram-aðgangi hennar, „dyralaeknir“, atvinnumál þar með afgreidd að sinni og farið út í lyftingarnar.

„Ég byrjaði í kraftlyftingum 2019, árið áður eignaðist ég mitt annað barn, sem er langveikt, og þetta var eiginlega liður í að koma sér aftur í gang og ná andlegri heilsu eftir að hafa fengið þær fréttir, sem voru erfiðar,“ segir Kristín frá og bætir því við að hún hafi fljótt fundið sig í stálinu og talið sig eiga gott erindi í greinina.

Kristín iðkaði frjálsar íþróttir sem barn og unglingur þar sem hennar höfuðgreinar voru spretthlaup og langstökk.

„Svo tók ég mér smá pásu frá íþróttum, ég hafði eitthvað prófað crossfit sem líkamsrækt, en svo eignast ég þarna tvö börn og byrja 35 ára í kraftlyftingum,“ segir Kristín frá en hún æfir undir merkjum Kraftlyftingafélags Akraness í fámennum en góðmennum hópi. „Við erum innan við tíu iðkendur þar en stemmningin er mjög góð og við erum með nokkra landsliðsmenn og -konur,“ segir Kristín af lyftingum þeirra Skagamanna.

Birgit Rós Becker og Kristín fallast í faðma á mótinu, …
Birgit Rós Becker og Kristín fallast í faðma á mótinu, kvenkyns fulltrúar landsins á EM, en þrír Íslendingar kepptu í karlaflokki í Svíþjóð um helgina. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

Þjálfari hennar er engin önnur en Amanda Lawrence, heimsmeistari í flokki Kristínar, -84. „Við kepptum á móti hvor annarri á HM í Halmstad núna fyrir tveimur mánuðum þar sem hún varð heimsmeistari, ég varð þriðja þar,“ segir Borgfirðingurinn.

Góður árangur í bekk þrátt fyrir meiðsli

Kristín var stigahæst inn á mótið nú um helgina í sínum þyngdarflokki og ætlaði sér því eðlilega ekki að yfirgefa mótið í lakari stöðu, stefnan sett beint á gullið. „Annað markmið hjá mér var að ná Evrópumetinu í [hné]beygju, sem ég var að berjast um á HM, ég jafnaði það þar, en það var önnur sem tók það á undan mér svo hún fékk það skráð á sig,“ segir Kristín sem í dag náði hins vegar ekki lakari árangri en svo, að bæta eldra metið um tvö og hálft kg og hefja þar á loft 220 kg.

„Til mín mun leikurinn gerður og skal ég að vísu …
„Til mín mun leikurinn gerður og skal ég að vísu út ganga,“ sagði Guðrún í sögunni af djáknanum afturgengna á Myrká og hér gengur Kristín að hnébeygjustönginni og ætlar sér ekki að gefa þumlung eftir, enda gerði hún það ekki. Ljósmynd/EPF/Kraftlyftingasamband Evrópu

Talið berst að bekkpressunni, grein sem nýtur slíkrar hylli meðal innvígðra í stálinu að gjarnan hefur verið kölluð „guðsgreinin“, að minnsta kosti óopinberlega.

„Ég er búin að eiga í axlarmeiðslum sem hafa hamlað mér í bekkpressunni en náði 115 sem er bæting á móti og ég er mjög ánægð með,“ segir Kristín frá en árangur hennar í guðsgreininni í dag var jafnframt nýtt Íslandsmet.

Í annarri lyftu Kristínar í réttstöðulyftu fóru 225 kg upp hjá henni, eitt Íslandsmetið til og ekki nóg með það, með þeirri lyftu innsiglaði dýralæknirinn hrikalegi úr Borgarfirði nýtt Evrópumet í sínum flokki í þríþraut, það er samanlagðri þyngd í bekkpressu, hnébeygju og réttstöðulyftu, 560 kg, bætingu um tvö og hálft kg á fyrra meti. Kristín lét að sjálfsögðu ekki þar við sitja heldur reyndi við 230,5 kg í réttstöðunni, lyftu sem hefði skilað henni tvíbætingu í samanlögðu auk Evrópumets í greininni, en ekki vildi stöngin upp í það sinnið.

„Það var eina lyftan sem fór ekki upp í dag,“ segir Kristín og má þó sannarlega vel við una með átta af níu lyftum gildar, tvö Evrópumet og fjögur Íslandsmet. Nú mega jólin koma, hefðu einhverjir sagt, enda verður stund milli stríða hjá Kristínu um jólin og játar hún að þá verði nú aðeins vikið frá stífum matseðli afreksfólks í kraftlyftingum.

Kristín hlaðin gulli í góðum félagsskap sjálfs Auðuns Jónssonar, Kópavogströllsins …
Kristín hlaðin gulli í góðum félagsskap sjálfs Auðuns Jónssonar, Kópavogströllsins sem svo nefndist fyrr á öldinni, nafntogaðs þjálfara íslenskra valkyrja og völsunga í stálinu. Ljósmynd/Hinrik Pálsson

„Ja, svona, maður náttúrulega vill ekki alveg tapa því sem maður er búinn að byggja upp,“ segir hún og getur ekki varist hlátri. „Reyndar gæti ég alveg gert betur í mataræðinu, maður reynir bara að borða vel og þá fyrst og fremst holla og hreina fæðu, mikið af kolvetnum og próteinum. Svo þegar nálgast mót fer ég að vigta allt ofan í mig og telja „macros“,“ heldur hún áfram, enda ljóst að árangur flestra íþróttagreina á rætur sínar víðar en á æfingum einum.

Langur undirbúningur

Hún kveður undirbúninginn fyrir EM hafa verið stuttan. „Undirbúningurinn fyrir HM í október var búinn að vera mjög langur af því að það voru engin alþjóðleg mót í fyrra og ég hafði náð lágmarkinu á HM í janúar 2020 svo maður var eiginlega bara búinn að halda sér í startholunum síðan og þar til í byrjun október núna. Þar sem svona stutt var milli móta var maður eiginlega bara að fínstilla sig og viðhalda sér, reyna að ná því út sem ég náði ekki á HM sem tókst nú bara eiginlega alveg,“ segir Kristín af nánast of mikilli hógværð.

Kristín á verðlaunapallinum í dag eftir framúrskarandi leik í -84 …
Kristín á verðlaunapallinum í dag eftir framúrskarandi leik í -84 kg flokki á EM í klassískum kraftlyftingum. Á silfur- og bronspöllum standa þær Katja Jørgensen frá Danmörku og Svíinn Ellinor Svensson. Ljósmynd/Auðunn Jónsson

Fram undan hjá henni er kærkomin hvíld eftir tvö stórmót. „Nú kemur smá svona „off-season“ og nýtt uppbyggingartímabil. Mér bauðst að taka þátt í RIG [Reykjavíkurleikunum, Reykjavik International Games] í janúar en ég ákvað að þiggja það ekki að þessu sinni af því að þetta er búið að vera dálítið strembin keyrsla í haust,“ segir Kristín Þórhallsdóttir, kraftlyftingakona úr Borgarfirði og nýbakaður Evrópumeistari, fyrst Íslendinga til að hreppa Evrópumeistaratitil í samanlögðu, sem nú stefnir ótrauð á Íslandsmeistaramótið í mars og næsta heimsmeistaramót í júní 2022. Stálið gefur engin grið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert