Afturelding og KA í úrslit

Leikmenn og þjálfari KA fagna sigrinum á Húsavík í kvöld.
Leikmenn og þjálfari KA fagna sigrinum á Húsavík í kvöld. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Ríkjandi bikarmeistarar Aftureldingar og ríkjandi Íslandsmeistarar KA tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitum Íslandsmóts kvenna í blaki með sigrum í öðrum leik undanúrslitanna.

Bikarmeistararnir mæta því Íslandsmeisturunum í úrslitaeinvíginu.

Afturelding hafði örugglega betur gegn HK, 3:0, í Digranesi. Mosfellingar unnu þar með einvígið 2:0.

Afturelding vann fyrstu hrinu 25:17, aðra hrinu 25:23 og þriðju hrinu 25:19.

Seinna í kvöld vann KA 3:1-sigur á Völsungi á Húsavík. KA vann einvígi sitt því sömuleiðis 2:0.

KA byrjaði betur og vann fyrstu hrinu 25:19 en önnur hrina reyndist æsispennandi.

Virtist hún engan endi ætla að taka þar sem liðinu skiptust á að ná naumu forskoti. Fór svo að lokum að KA vann aðra hrinu 30:28.

Völsungur lét það ekki á sig fá og vann þriðju hrinu geysilega öruggelga, 25:15, og minnkaði muninn þar með niður í 2:1.

Í fjórðu hrinu var spennan í algleymingi og var Völsungur með naumt forskot lengi vel. Hins vegar reyndist KA sterkara undir blálokin, vann hrinuna 25:23 og þar með leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert