Guðmundur meðal efstu manna í Portúgal

Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Guðmundur Ágúst Kristjánsson Ljósmynd/seth@golf.is

Atvinnukylfingurinn Guðmund­ur Ágúst Kristjáns­son hefur leikið virkilega vel á Opna portúgalska mótinu í golfi en hann lauk öðrum hring í dag. Mótið er liður í Evr­ópu­mótaröðinni, þeirri sterk­ustu í Evr­ópu. Þeir Guðmund­ur Ágúst Kristjáns­son og Har­ald­ur Frank­lín Magnús eru á meðal kylf­inga á mót­inu.

Ekki tókst að ljúka öðrum hring mótsins í gær vegna veðurs en Guðmundur og Haraldur hafa báðir lokið honum í dag. Til stendur að spila þriðja hringinn síðdegis. Guðmundur er sem stendur jafn í 17. sæti eftir að hafa leikið hringinn á pari í dag, 72 höggum, en hann náði aðeins að spila fyrstu holuna í gær áður en stöðva þurfti mótið. Hann er alls á þremur höggum undir pari.

Haraldur Franklín lék fimmtán holur í gær og átti því lítið eftir í morgun. Hann lék á fjórum höggum yfir pari í dag, 76 höggum, og er alls á sex höggum yfir pari í 105.-111. sæti. Fjórða og síðasta hringinn á að spila á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert